Athygli vakti að Mbappé mætti beint til æfinga hjá PSG eftir að hafa spilað gott sem hverja einustu mínútu á HM þar sem Frakkar fóru alla leið í úrslitin. Sá franski skoraði þrennu er þeir þurftu að þola tap fyrir Argentínu í vítakeppni eftir framlengdan leik.
Parísarmönnum gafst þá tæplega tækifæri til að hvíla hann í leik gærkvöldsins við Strasbourg þar sem liðsfélagi hans Neymar fékk að líta rautt spjald þegar tæpur hálftími lifði leiks. Mbappé spilaði allt til loka og skoraði sigurmark PSG á 96. mínútu leiksins í 2-1 sigri.
Eftir leik var Mbappé spurður út í Emiliano Martínez, markvörð Argentínu og Aston Villa á Englandi, en sá hefur vakið athygli fyrir misgáfuleg fagnaðarlæti eftir úrslitaleikinn. Hann söng níðsöngva um Mbappé eftir leik og var þá mættur með Mbappé-brúðu þegar þeir argentínsku fóru á rútu í gegnum Buenos Aires.
Mbappé var spurður út í Martínez eftir leik gærkvöldsins og kveðst ekki eyða orku í að pæla í honum.
„Fagnaðarlæti eru ekki vandamál fyrir mér. Ég eyði ekki orku í svo léttvæga hluti. Það sem er mikilvægt fyrir mér er að gefa mitt besta fyrir félagið, sagði Mbappé eftir leik í gær.“