Gerða heldur úti námskeiðinu In Shape í líkamsræktarstöðinni World Class. Námskeiðið er ætlað konum sem vilja komast í betra form á skemmtilegan hátt. Um er að ræða styrktaræfingar með eigin líkamsþyngd og léttum lóðum, teygjum og slökun. Námskeiðið hefur slegið í gegn og ákvað Gerða að blása til alvöru In Shape veislu á þessu glæsilega hóteli.
Vettvangur fyrir konur til þess að stækka tengslanetið
„Það er bara svo næs að skapa þennan vettvang þar sem fólk er að hittast án þess að vera á djamminu, því maður tengist öðruvísi,“ segir Gerða um viðburðinn.
„Ég hef nefnilega séð þetta á námskeiðunum mínum. Það eru þar alls konar týpur og þær kynnast og stækka tengslanetið sitt.“
Á æfingunni voru samankomnar konur úr hinum ýmsu kimum samfélagsins. Á meðal gesta voru förðunarfræðingarnir Erna Hrund Hermannsdóttir, Kolbrún Anna Vignisdóttir og Thelma Guðmundsen, athafnakonurnar Birgitta Líf Björnsdóttir, Andrea Magnúsdóttir og Elísabet Metta Ásgeirsdóttir, tískubloggararnir Pattra Sriyanonge og Anna Bergmann, fjölmiðlakonurnar Edda Sif Pálsdóttir, Kolbrún Pálína Helgadóttir og Viktoría Hermannsdóttir, fyrirsæturnar Ragnheiður Theodórsdóttir og Sigrún Eva Jónsdóttir, þjálfarinn Karítas María Lárusdóttir og kokkurinn Hrefna Sætran.
Plötusnúðurinn Dóra Júlía keyrði stemminguna í gang áður en æfingin hófst. Ekkert var gefið eftir og var stemmingin virkilega góð eins og sjá má á myndum fyrir neðan. Kvöldinu lauk svo með því að Erna Bergmann leiddi teygjur og hugleiðslu.
















