Frakkinn hafði sig ekki mikið í frammi þegar KR tapaði fyrir ÍR, 88-95, í fallbaráttuslag á Meistaravöllum á fimmtudaginn. Semple skoraði þó fimmtán stig, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
„Þetta er kannski eitt af vandamálum KR-liðsins er að ég held að þeim finnist hann (SEmple) ekki skemmtilegur, líki ekki vel við hann. Og ef þér líkar ekki vel við einhvern ertu að fara að gefa á hann?“ sagði Brynjar í Subway Körfuboltakvöldi í fyrradag.
„Þetta er bara snjóbolti. Honum líkar ekki við aðra og gefur ekki boltann á ákveðna leikmenn.“
Brynjar segir ekkert vafamál að liðsheildin hjá KR sé ekki sterk og samheldnin ekki mikil.
„Það sést bara á liðinu. Þeir eru bara með tólf stoðsendingar og þar af eru bakverðirnir með fjórar. Fyrir leikmenn sem eru með boltann nánast allan tímann er það hræðilegt,“ sagði Brynjar.
Hann segir nauðsynlegt að leikmenn láti sér lynda við samherja sína og þekkir það af reynslu.
„Þú verður að geta átt í mannlegum samskiptum við liðsfélagana. Sögurnar sem maður hefur heyrt eru ekki góðar. Við fórum í gegnum það í fyrra þegar við fengum Isiah Martenson sem var alveg stórkostlegt eintak en mjög skrítinn og stórfurðulegur karakter. Við reyndum allavega en síðan var þetta ekki hægt lengur,“ sagði Brynjar.
„Þú ert í til að hafa gaman og njóta leiksins og augnabliksins en vandamálið í körfunni er að við erum með málaliða. Þetta eru bara málaliðar sem fá skítalaun og þegar þeir smella ekki saman, sérstaklega eins og núna þegar KR er með fjóra útlendinga, verður þetta þurrt og leiðinlegt.“
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.