Körfubolti

Tólf stig frá Elvari þegar Rytas vann í Meistaradeildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar skoraði tólf stig fyrir Rytas.
Elvar skoraði tólf stig fyrir Rytas. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Friðriksson og félagar hans í litáíska liðinu Rytas unnu góðan sigur á gríska liðinu Peristeri í Meistaradeild Evrópu í körfubolta í kvöld. Þetta er annar sigurleikur Rytas í keppninni.

Fyrir leikinn í kvöld var Peristeri liðið með tvo sigurleiki eftir þrjár umferðir en Rytas með einn sigurleik. Leikurinn í kvöld fór fram í Grikklandi og það voru gestirnir í Rytas sem byrjuðu mun betur og leiddu 28-14 eftir fyrsta leikhlutann.

Heimamenn bitu aðeins frá sér í öðrum leikhluta en gestirnir leiddu með sex stigum í hálfleik, staðan þá 44-38.

Körfubolti er leikur áhlaupa og leikurinn í kvöld var engin undantekning. Rytas vann þriðja leikhlutann 26-15 og var því með þægilega sautján stiga forskot áður en lokafjórðungurinn hófst.

Þann mun náðu heimamenn ekki að brúa og Rytas fagnaði 82-71 sigri.

Elvar Friðriksson skoraði 12 stig fyrir Rytas í kvöld á þeim rúmu átján mínútum sem hann lék. Auk þess gaf hann 5 stoðsendingar og tók 2 fráköst.

Liðin eru nú jöfn að stigum í H-riðli en Tenerife er í efsta sæti með þrjá sigra í fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×