Fótbolti

Bræður spila fyrir sitt hvora þjóðina á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Inaki Williams og Nico Williams fagna saman marki með Athletic Bilbao liðinu.
Bræðurnir Inaki Williams og Nico Williams fagna saman marki með Athletic Bilbao liðinu. Getty/Fran Santiago

Williams bræðurnir eru samherjar hjá Athletic Bilbao en þeir spila ekki fyrir sama landslið á heimsmeistaramótinu í Katar.

Bæði Inaki og Nico Williams komust í HM-hópa þjóðanna sinna en þetta kom í ljós þegar þau voru tilkynnt á dögunum.

Hinn 28 ára gamli Inaki Williams er í hópnum hjá Gana en hinn tvítugi Nico Williams er í landsliðshópi Spánar. Hér fyrir neðan sjást þeir saman með HM-bikarinn og í búningum þjóða sinna.

Báðir eru þeir fæddir í Bilbao í Baskalöndum á Spáni en foreldrar þeirra eru flóttamenn frá Gana. Þau komust til Spánar með því að fara yfir Sahara eyðimörkin á fótum og með því að hoppa yfir landamæragirðinguna í Metilla.

Inaki hefur spilað með Athletic Bilbao frá árinu 2014 og hefur ekki misst úr leik undanfarin sextán ár. Inaki spilaði einn landsleik fyrir Spán árið 2016 en tók þá ákvörðun í ár að spila fyrir Gana.

Nico er átta árum yngri en hefur spilað með Athletic Bilbao frá 2021. Hann fékk sitt fyrsta tækifæri í spænska landsliðinu á þessu ári og var valinn í HM-hópinn.

Spánn er í E-riðli með Þýskalandi. Japan og Kosta Ríka. Gana er í H-riðli með Portúgal, Suður Kóreu og Úrúgvæ.

Vinni Spánn og Gana sinn riðil og svo sinn leik í sextán liða úrslitum þá myndu liðin mætast í átta liða úrslitum keppninnar en það myndi einnig gerast ef bæði liðin yrðu í öðru sæti sinna riðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×