Heimsmeistaramótið í Katar hefst eftir tíu daga, en mótið hefur sætt mikilli gagnrýni vegna tíðra mannréttindabrota ríkisins.
Danska knattspyrnusambandið, DBU, sendi því inn beiðni til FIFA þar sem óskað var eftir því að danska landsliðið fengi að klæðast æfingatreyjum með áletruninni „Human Rights For All,“ eða „Mannréttindi fyrir alla.“ Þeirri beiðni hefur hins vegar verið hafnað.
FIFA afviser DBU: Må ikke bære trøjer med "Human Rights For All" https://t.co/nbWaZ9DV8j
— bold.dk (@bolddk) November 10, 2022
„Við fengum skilaboðin í dag. Við sendum umsókn inn til FIFA, en svarið er neikvætt og við hörmum það. En við verðum að taka tillit til þess,“ sagði Jakob Jensen, framkvæmdastjóri DBU.
Danska landsliðið mun því æfa og hita upp án þess að bera pólitísk skilaboð á treyjum sínum þegar liðið mætir til leiks eftir tæpar tvær vikur.