Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur og skáld ræðir bróðurmissinn í nýjasta þættinum af Einkalífinu. Hrafn Jökulsson lést í september 56 ára að aldri eftir stutta baráttu við krabbamein.
„Auðvitað syrgi ég og sakna hans alveg hamslaust en það er samt eitthvað í mér sem er að horfa á það góða. Góðu minningarnar og það góða sem hann gerði. “
Hún segir að missirinn hafi verið áfall. Fyrsta áfallið hafi þó komið þegar hann var fluttur á sjúkrahús.
„Það var eins og ég væri slegin framan á bringuna. Ég vissi ekkert í hvaða átt ég ætti að halda. Ég ruglaðist bara. Þetta var eins og að vera villtur í skógi. Ég vissi ekkert. Sem betur fer hef ég góðan geðlækni.“
Elísabet segir að veikindi og fráfall Hrafns hafi gert systkinin nánari.
„Þegar hann dó þá var það svo skrítið og óskiljanlegt.“
Í þættinum hér fyrir neðan ræðir Elísabet líka um æskuna, áföll, missi , fíkn, móðurhlutverkið og hvernig það var þegar barn var tekið af henni. Hún talar um bækurnar, ferilinn, framtíðina, draumana og margt fleira.