Tónlist

Ómetanlegt að hafa alltaf fengið pláss til að prófa sig áfram

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Una Torfa ræddi við blaðamann um Airwaves
Tónlistarkonan Una Torfa ræddi við blaðamann um Airwaves Anna Maggý

Tónlistarkonan Una Torfa kemur fram á Iceland Airwaves í ár en þetta er bæði í fyrsta skipti sem hún kemur fram á hátíðinni sem og fer á hátíðina yfir höfuð. Una Torfa hefur endalausan áhuga á tengslum og leggur upp úr list sem er tilfinningaþrungin og heiðarleg.

Aðspurð hvernig Airwaves hátíðin leggst í hana segir Una:

„Ég er mjög spennt og hlakka þvílíkt til að spila í fyrsta skipti með hljómsveit. Ég hef aldrei farið á Airwaves sjálf og það verður gaman að sjá hvernig stemningin verður í kringum þetta allt saman, svo veit ég líka að ég mun heyra og sjá alls konar nýtt og það er alltaf skemmtilegt.“

„Pínu eins og þegar er verið að skipta um dekk“

Það er nóg um að vera hjá Unu og segir hún engan dag eins í hennar daglega lífi.

„Ég er í Tækniskólanum að læra klæðskurð og mæti oft svolítið oft seint en næstum alltaf hress og hlæ mikið með bekkjarfélögunum. 

Ég tek nokkrar vaktir í mánuði sem dresser í Þjóðleikhúsinu þar sem ég hjálpa leikurum að klæða sig mjög hratt, pínu eins og þegar er verið að skipta um dekk á kappakstursbílum í formúlunni. 

Ég gigga svo líka slatta og reyni að semja og taka upp þegar ég á lausa stund. Svo er ég mjög mikil félagsvera og reyni að verja eins miklum tíma og ég get með vinum mínum, fjölskyldunni og kærastanum.“

Una stundar klæðskurðs nám við Tækniskólann og segist svolítið oft mæta seint en næstum alltaf hress.Svava Lovísa Aðalsteinsdóttir

Forvitnileg viðfangsefni

„Ég hef endalausan áhuga á tengslum,“ segir Una um hvaðan innblásturinn kemur og bætir við: „Sambönd milli fólks, sambandið á milli hugsana, tilfinninga, orða og gjörða, mér finnst þetta allt svo forvitnilegt.

Ég er hrifnust af list sem er tilfinningaþrungin og heiðarleg, kannski af því að ég er svo skapstór og reyni að vera eins einlæg og ég get.“

Alltaf fengið pláss til að prófa sig áfram

Það sem hefur mótað Unu hvað mest sem söngkonu er ást hennar á því að syngja.

„Ég vinn tónlistina mína mjög mikið út frá röddinni, fæ innblástur frá lögum sem mér finnst gaman og helst líka krefjandi að syngja og reyni að semja þannig melódíur, ferskar en samt eins og maður hafi heyrt þær áður.

Ég er líka umkringd músíkölsku fólki og ég hef alltaf fengið pláss til að prófa mig áfram, það er alveg ómetanlegt.“

Una Torfa sækir mikinn innblástur í tengsl.Anna Maggý

Allt eða ekkert

Áður en Una stígur á svið segist hún annað hvort þurfa að vera mjög vel æfð eða næstum ekkert.

„Allt þar á milli stressar mig. 

Annað hvort vil ég vita nákvæmlega hvað ég er að gera eða bara spila af fingrum fram, ef ég er með óljósa hugmynd um hvað ég ætla að gera verð ég óörugg og nýt mín ekki.

Þegar eitthvað eins stórt og Airwaves stendur til finnst mér best að vera vel æfð, búin að ákveða í hvaða fötum ég verð, fara í sund og borða svo eitthvað sem lætur mér líða vel. Í rauninni snýst þetta bara um að gefa sjálfum sér eins góðan séns á að standa sig vel og maður getur,“ segir Una að lokum. 


Tengdar fréttir

Burstar alltaf tennurnar rétt áður en hún stígur á svið

KUSK er listamannsnafn tónlistarkonunnar Kolbrúnar Óskarsdóttur en hún skaust upp á stjörnuhimininn fyrr á árinu þegar hún bar sigur úr býtum í Músíktilraunum. KUSK kemur fram á Airwaves í ár en hún var jafnframt að senda frá sér plötuna Skvaldur í dag. Blaðamaður tók púlsinn á KUSK.

Tók sitt fyrsta gigg fyrir ári síðan en hefur nú spilað um allan heim

Tónlistarkonan Árný Margrét á viðburðaríkt ár að baki sér en hún spilaði sitt fyrsta gigg á Airwaves hátíðinni í fyrra í gegnum streymi. Þá hafði hún einungis gefið út eitt lag en hefur nú sent frá sér plötu í fullri lengd og komið fram bæði hérlendis og erlendis. Blaðamaður tók púlsinn á Árnýju, sem spilar á Iceland Airwaves í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.