Lífið

Upptakturinn hlaut alþjóðlegu verðlaunin YAMawards

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist.  Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjóri Upptaktsins og Ása Briem í tónlistardeild Hörpu tóku við verðlaununum.
Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist.  Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjóri Upptaktsins og Ása Briem í tónlistardeild Hörpu tóku við verðlaununum. Aðsent

Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna sem haldinn er árlega í Hörpu, hlaut fyrr í vikunni alþjóðlegu verðlaunin YAMawards eða The Young Audiences Music Awards sem Besta þátttökuverkefnið fyrir ungmenni.

 „YAM verðlaunin heiðra sköpunargáfu og nýsköpun í tónlistarframleiðslu ungmenna frá öllum heimshornum - frá einleikurum til hljómsveita og allt þar í milli. All bárust 70 tilnefningar frá 26 löndum og voru verðlaun veitt í sex flokkum,“ segir í tilkynningu frá Hörpu.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Concertgebouw tónlistarhúsinu í Brugge í Belgíu í vikunni. Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjóri Upptaktsins og Ása Briem í tónlistardeild Hörpu tóku við verðlaununum. Upptakturinn er haldinn á vegum Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands.

„Að hljóta YAM verðlaunin er frábær viðurkenning fyrir okkur sem að Upptaktinum stöndum. Upptakturinn hefur vaxið og dafnað með öllu því frábæra listafólki sem að verkefninu kemur - að ég tali nú ekki um krakkana sem hafa verið dugleg að senda okkur hugmyndir sínar og treyst okkur til að koma þeim til skila á tónleikum í Hörpu. Þessi verðlaun sýna og sanna hversu dýrmætt það er að leiða saman ungmenni og starfandi listafólk og veita krökkunum brautargengi. Harpa opnar húsið upp á gátt - húsið sem við eigum saman og það er svo frábært“, segir Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjóri Upptaktsins.

„Upptakturinn er afar mikilvægt verkefni sem Harpa er stolt að leiða. Barnamenning og tengsl barna við tónlist eru áherslumál hjá Hörpu og við myndum fagna því að fjölga samstarfsaðilum meðal sveitarfélaga með það að markmiði að tónsmíðar barna og ungmenna alls staðar af á landinu geti átt möguleika á að vera valdar inn í Upptaktinn. Verðlaun sem þessi eru þakklát viðurkenning og hvatning til þeirra fjölmörgu sem að þessu frábæra verkefni koma,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu.

Upptakturinn er einnig í samstarfi við Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabæ, Borgarbyggð, Seltjarnarnesbæ, Kópavogsbæ og Menningarfélag Akureyrar. Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Að þessu ferli loknu er hið nýja tónverk flutt á tónleikum og varðveitt með upptöku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.