„Ég held það já, við vitum að íslensku stelpurnar eru með mikil gæði í sínu liði og við vanmátum þær ekki fyrir leikinn,“ sagði Miedema í samtali við Stöð 2 Sport og Vísi eftir leikinn í kvöld.
„En ég held að þær hafi fengið eitt opið færi í leiknum á meðan við fengum kannski átta eða níu þannig ég held að þetta hafi verið sanngjörn úrslit.“
Hollenska liðinu tókst á einhvern ótrúlegan hátt ekki að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik þar sem Sandra Sigurðardóttir var gjörsamlega frábær, ásamt því að þversláin bjargaði íslenska liðinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
„Ég trúði þessu varla sjálf ef ég á að vera hreinskilin. Ég held að við höfum skotið þrisvar í slá og þær björguðu einu sinni á línu. Á einhverjum tímapunktui hugsar maður: „Munum við skora í kvöld?“ En á endanum fer svona bolti inn og þannig er fótboltinn bara.“
„Við höfðum heppnina með okkur í kvöld og íslenska liðið var kannski óheppið, en þær geta farið að einbeita sér að umspilinu núna.“
Fyrir leikinn töluðu hollensku leikmennirnir um að íslenska liðið væri baráttulið og það má með sanni segja að það hafi sannast í kvöld.
„Þær sýndu það á Evrópumótinu í sumar og þær sýndu það aftur í kvöld. Þær gerðu það sem þær þurftu að gera í 90 mínútur í kvöld og þær eru með gott lið, en við áttum skilið að vinna.“
Að lokum sagðist Miedema hafa trú á því að sjá íslenska liðið á HM næsta sumar.
„Já, ég held það. Ég talaði við Dagnýju [Brynjarsdóttur] og mér finnst þær hafa gæðin. Þær þurfa kannski bara að vera heppnar með hvaða andstæðinga þær fá í umspilinu því það getur verið mjög flókið. En ég held að þær eigi klárlega góða möguleika á að koma sér í gegnum það,“ sagði Miedema sem spilaði með Dagnýju hjá Bayern München á sínum tíma.