Erlent

Segjast líklegast bera ábyrgð á dauða Akleh

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá mótmælum í borginni Betlehem í júlí er Joe Biden Bandaríkjaforseti var í heimsókn þar.
Frá mótmælum í borginni Betlehem í júlí er Joe Biden Bandaríkjaforseti var í heimsókn þar. EPA/Abed Al Hashlamoun

Ísraelski herinn segist líklegast bera ábyrgð á dauða blaðakonunnar Shireen Abu Akleh sem skotin var til bana á Vesturbakkanum í maí. Ísraelsmönnum hefur ekki tekist að rannsaka byssukúluna sem drap hana til þess að staðfesta það en Akleh var stödd á Vesturbakkanum til að flytja fréttir af átökum Ísrael og Palestínu.

Akleh var klædd í gult vesti, merkt fjölmiðlum þegar hún var skotin í hausinn. Ísraelski herinn hafði haldið því fram að ef Akleh hefði verið skotin af ísraelskum hermanni þá hafi það verið fyrir slysni þegar hermaður ætlaði sér að skjóta vopnaðan Palestínumann. Rannsókn New York Times leiddi í ljós að enginn vopnaður Palestínumaður hafi verið nálægt henni þegar hún var skotin.

Ísraelski herinn heldur því nú fram að það sé ekki hægt að staðfesta hvaðan byssuskotið kom en það sé mjög líklegt að hún hafi verið skotin af ísraelskum hermanni. Herinn ætlar þó ekki að rannsaka málið eða hermennina sína frekar.

Talsmaður hersins segir að hermennirnir hafi ekki vitað að þeir væru að skjóta á fjölmiðlafólk og að líklegast hafi sú staðreynd að Akleh sneri í áttina að hermönnunum haft áhrif á útkomuna. Samt sem áður var Akleh í gulu vesti, merkt fjölmiðlum að framan og aftan.

Þegar talsmaðurinn var spurður út í það að rannsóknir fjölmiðla á málinu hafi sýnt að enginn vopnaður hermaður hafi verið nálægt Akleh sagði hann: „Það voru skæruliðar nálægt fröken Abu Akleh. Kannski ekki einum metra frá henni en þeir voru á svæðinu.“


Tengdar fréttir

Lögreglumenn börðu syrgjendur í útför blaðakonu

Ísraelskir lögreglumenn börðu syrgjendur með kylfum í útför blaðakonu al-Jazeera sem var skotin til bana á Vesturbakkanum á miðvikudag. Kistuberar misstu kistu hennar stuttlega vegna atgangsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×