Bæði lið komu boltanum í mark andstæðingsins í fyrri hálfleik en mörkin tvö voru dæmd ógild og leikurinn var því markalaus í leikhlé.
Varamaðurinn Antonie Griezmann skoraði svo eina mark leiksins á 66. mínútu þegar skot hans fyrir utan vítateig Valencia fer af Carlos Soler, leikmanni Valencia, og þaðan í netið. Griezmann kom inn af varamannabekknum aðeins tveimur mínútum áður.
Mark Griezmann dugði til að tryggja Atletico stigin þrjú sem lyftir liðinu upp í 6. sæti með sex stig. Valencia er á sama tíma í 14. sæti með 3 stig eftir þrjár umferðir.
Í hinum leik kvöldsins vann Athletic Bilbao 0-4 útisigur á Cadiz. Inaki Williams og Alex Berenguer skoruðu mörk Bilbao ásamt tveimur mörkum frá Gorka Guruzeta.
Cadiz er á botni deildarinnar, eina liðið í deildinni sem er enn þá stigalaust. Athletic Bilbao er hins vegar í 5. sæti með sjö stig.