Í tilkynningu sambandsins er skrifað að metnaðarfullum markmiðum liðsins verði ekki náð undir forystu Parsons. Síðasti leikur liðsins undir hans stjórn var 1-0 tap Hollands gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum á Evrópumótinu í Englandi.
„Í aðdraganda EM og á mótinu sjálfu voru úrslitin vonbrigði og það er óásættanlegt. Hollenska liðið var að verja Evrópumeistaratitilinn sinn en liðið spilaði einnig til úrslita á síðasta heimsmeistaramóti. Við viljum berjast um stóru bikarana. Með undankeppni HM í huga hefur sú ákvörðun verið tekin að fá nýjan aðila til að stýra liðinu,“ sagði Jan Dirk van de Zee, yfirmaður knattspyrnumála hjá hollenska kvennalandsliðinu.
Í undankeppni HM leikur Holland í C-riðli með Íslandi. Næsti leikur Hollands í undankeppninni er gegn því íslenska þann 6. september næstkomandi en fyrst taka þær á móti Skotlandi í vináttuleik 2. september.
Í tilkynningu sambandsins er jafnframt tekið fram að hollenska liðið verði að vinna það íslenska ef það ætlar að ná markmiðum sínum að spila á næsta heimsmeistaramóti sem fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.
Holland er í efsta sæti C-riðils með tveggja stiga forskot á Ísland en íslenska liðið hefur leikið einum leik minna en það hollenska.
Á 18 ára ferli sínum sem þjálfari hefur Parsons meðal annars stýrt liðum Portland Thorns og Washington Spirit í bandarísku NWSL deildinni. Parsons var einungis í 15 mánuði með hollenska liðið eftir að hann tók við því í maí á síðasta ári af Sarina Wiegman, sem stýrir í dag Evrópumeisturum Englands.