Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fórst þú fyrst á Þjóðhátíð?
Ég fór fyrst á Þjóðhátíð árið 2016. Þá var ég að spila á Húkkaraballinu og fór heim á föstudeginum, þannig að ég náði ekki alveg að upplifa Þjóðhátíð. Síðan þá hef ég alltaf verið að spila á föstudeginum og fimmtudeginum reyndar líka, sem er bara veisla.
Hvað finnst þér skemmtilegast við þessa hátíð?
Mér finnst skemmtilegast hvað það eru ótrúlega margir þarna. Það er náttúrulega sturlun hvað það fara margir og svo er þetta svona útlanda vibe, því maður er að fara í bát eða með flugvél.
Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þú stígur á svið?
Hátíðargestir mega búast við banger eftir banger, óvæntum atriðum og skemmtun á heimsmælikvarða.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið þitt?
Ég held að að uppáhalds Þjóðhátíðarlagið mitt sé La Dolce Vita með Páli Óskari. Ég komst bara að því um daginn að það er Þjóðhátíðarlag! Og Á sama tíma á sama stað. Þau tvö eru uppáhalds.
Hvernig ætlar þú að undirbúa þig fyrir stóru stundina?
Ég ætla að undirbúa mig með því sem ég geri alltaf, ég fæ mér í vörina og drekk kannski tvo, þrjá Red Bull Zero áður en ég fer á svið.
Það er nú ekki flóknara en það!