Lífið

Líður eins og stjörnu í Sarajevó

Bjarki Sigurðsson skrifar
Blær að taka við verðlaununum.
Blær að taka við verðlaununum. Mario Ilić / OFF Press

Blær Hinriksson vann í vikunni til verðlauna á kvikmyndahátíð í Sarajevó í Bosníu og Hersegóvínu. Blær fékk verðlaun fyrir besta unga leikara í kvikmyndaflokki fyrir myndirnar Hjartastein og Berdreymi.

Í samtali við fréttastofu segist Blær vera hæstánægður með verðlaunin. Stemningin í Sarajevó sé rosalega góð þessa dagana.

„Maður lifir smá eins og stjarna hérna. Ég vissi ekkert hvað ég væri að fara út í eða hversu stór kvikmyndahátíð þetta væri. Það er svo oft með svona hátíðir, maður veit ekki hvort það séu tíu manns að fara að horfa á myndina eða fullt af fólki. Þetta er ágætlega stór hátíð og maður er eins og stjarna hérna,“ segir Blær.

Blær með umboðsmanni sínum Maríu Hrund Marinósdóttur.Aðsent

Hjartasteinn kom út árið 2016 en var samt sem áður á hátíðinni í ár. Blær segir skondna sögu vera á bak við hvers vegna myndin var á hátíðinni í ár.

„Myndin átti að vera á hátíðinni árið 2019 en því var frestað út af Covid. Einn stærsti leikstjórinn í Bosníu, hann er hér og á að velja hvaða myndir eiga að vera á hátíðinni. Hann alveg elskar Hjartastein og sagði „Við þurfum að hafa þetta sem aðalmynd. Við þurfum,“ en stjórinn sagði að það væri ekki hægt því hún er frá 2016. Þannig myndin er „special feature“ á hátíðinni og er eiginlega aðalmyndin sem er mjög fyndið því hún er svona gömul,“ segir Blær.

Blær segist ekki vera að vinna í öðrum kvikmyndaverkefnum þessa stundina heldur sé hann bara að njóta í Sarajevó og undirbúa sig fyrir komandi átök í Olís-deildinni í handbolta. Þar spilar hann með Aftureldingu.

„Það er 32 stiga hiti og á morgun er fjörutíu stiga hiti. Það er alveg æðislegt að vera hérna. Þetta er svo falleg borg, hefur svo mikla sögu og er mjög merkileg bara. Það er ekkert uppi á borðum, maður fer í prufur annað slagið og svona en svo er bara undirbúningur fyrir handboltatímabilið. Maður reynir að hreyfa sig áður en maður fer í viðtöl og að labba á rauða dreglinum,“ segir Blær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.