Dreymir um að kyssa Zac Efron
Ísabella er mjög metnaðargjörn og stundar nám í löfræði Í HR. Hún drekkur ekki áfengi, elskar pönnukökur og beikon í morgunmat og dreymir um að kyssa Zac Efron.
Miss Universe Iceland keppnin verður haldin í sjöunda sinn þann 24. ágúst í Gamla bíó. Keppendur í ár eru sautján talsins og ætla lesendur Vísis að fá að kynnast stúlkunum sem keppast um titilinn betur.
Hvað var það sem vakti áhuga þinn á keppninni?
Manúela heyrði í mér og ég hugsaði, afhverju ekki?
Einnig langaði mig að sýna að það eru allir fallegir sama hvaða stærð, hæð eða ör eru á líkamanum. Þar sem ég er með ör á maganum eftir að hafa fengið nýra frá pabba mínum. Mér hefur ekki alltaf liðið vel í mínu skinni vegna þess og mér hefur alltaf liðið eins og ég gæti ekki sýnt það, sem er fáránlegt.
Keppnin hefur haft margar sterkar, magnaðar konur sem hafa verið allskonar og allar virkilega fallegar bæði að innan sem utan. Margir halda að keppnin sé bara fyrir ytra útlit en hún er svo margt annað og stendur fyrir svo margt fallegt sem mig langaði að vera partur af. Sýna öllum að líða ekki illa í sínu skinni.
Hefur lært að verða sjálfsörugg
Hvað ert þú búin að læra í ferlinu?
Ég er búin að læra margt í ferlinu, bæði um sjálfan mig og líka um þennan heim. Ef þú hefðir sagt við mig fyrir þremur árum að ég væri að fara að labba um í sundfötum á sviði hefði ég aldrei trúað þér.
Það hefur verið æðislegt að kynnast stelpunum og heyra þeirra sögu. Ég hef lært hvernig á að vera sjálfsörugg og standa með sjálfri mér. Einnig hef ég lært að labba fallega á hælum.
Hvað borðar þú í morgunmat?
Ég borða oft brauð með einhverju áleggi í morgunmat. Síðan er virkilega gott að fá pönnukökur og beikon um helgar. Reyndar hata ég egg svo þú sérð þau ekki á disknum mínum.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Uppáhaldsmaturinn minn er örugglega pastað sem pabbi minn gerir.
Hvað ertu að hlusta á?
Hef mikið verið að hlusta a lagið Feel like a woman með Shania Twain þegar ég þarf sjálfsöryggis „boozt“. Síðan klikkar Frikki Dór aldrei.
Pabbinn og amman stærstu fyrirmyndirnar
Hver er uppáhalds bókin þín?
Erfið spurning. Myndi segja Bangsímon sem ég las alltaf með mömmu sem barn. Gefur mér góðar minningar.
Hver er þín fyrirmynd í lífinu?
Ég er með tvær fyrirmyndir í lífinu. Pabbi minn gaf mér bestu gjöf lífsins, líffæri til að bjarga mér. Hann hefur kennt mér svo margt allt frá því að vera sterk kona og standa fyrir mínu. Allt frá því að elda mat til hvernig á að starta bíl sem er rafmagnslaus.
Svo er það amma mín sem því miður er ekki lengur með okkur. Hún var með einstaklega fallega sál og hugsaði alltaf fyrst um aðra. Hún kenndi mér að alltaf vera til staðar fyrir fólkið mitt.
Hver er frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Ég fékk þann heiður að vinna með Pétri og Sveppa á tímabili. Hef ekki hitt neina Hollywood-stjörnu ennþá en hinsvegar koss frá Zac Efron efst á „bucket-listanum.“
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Neyðarlegasta atvik sem ég hef lent í er þegar ég var að skemmta mér með vinum mínum. Þar sem ég drekk ekki áfengi er ég alltaf edrú en samt sem áður var ég stelpan sem datt niður stigann á staðnum sem við vorum á, ekki hinir. Ég stóð bara upp og hló, hvað annað gat maður gert!
Stolt af afrekum sínum þrátt fyrir veikindi
Hverju ertu stoltust af?
Ég er stoltust af því hvað ég hef gert margt, þó að margir hafi sagt við mig að ég gæti ekki hitt og þetta vegna veikinda minna. Ég kláraði stúdent á þremur árum og síðan á ég aðeins eitt ár eftir af lögfræðináminu mínu í HR.
Einnig er ég virkilega stolt af því hvað ég og ballett nemendur mínir hafa sett á svið. Ég er líka stolt af mér að vera í þessari keppni.
Hver er þinn helsti ótti?
Minn helsti ótti er voða venjulegur en ég er virkilega hrædd við kóngulær. Síðan hata ég egg af ástríðu.
Hvar sérðu þig eftir fimm ár?
Ég sé mig vera búin með B.A. Í lögfræði og meistaranámi. Síðan vera vonandi búin að ferðast um heiminn og upplifa mikið. Einnig þroskast og vonandi hafa hjálpað mörgum á lífsleið þeirra. Ég sé mig njóta lífsins því það skiptir máli. Við eigum bara eitt líf svo maður þarf að skemmta sér og njóta.
Hvaða lag tekur þú í karókí?
Ég tek alltaf I Want It That Way með Backstreet Boys, klassískt.