Ísland gerði 1-1 jafntefli í fyrsta leik liðsins gegn Belgíu og lítið annað en sigur kemur til greina í dag ætli liðið sér að komast upp úr riðlinum og í 8-liða úrslit mótsins.
Fyrir leikinn í dag gerir Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari eina breytingu á byrjunarliðinu frá því í fyrsta leiknum. Elísa Viðarsdóttir kemur inn í hægri bakvarðarstöðuna fyrir Sif Atladóttur. Elísa myndar því varnarlínu með Glódísi Perlu Viggósdóttur, Guðrúnu Arnardóttur og Hallberu Gísladóttir. Sandra Sigurðardóttir stendur síðan í markinu þar fyrir aftan.
Á miðjunni verða Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði en ýmsar vangaveltur hafa verið í aðdraganda leiksins hvort Karólína Lea Vilhjálmsdóttir yrði færð af kantinum og niður á miðjuna. Þorsteinn heldur sig hins vegar við sömu miðjumenn og gegn Belgum.
Sóknarlínan er einnig sú sama. Karólína Lea og Sveindís Jane Jónsdóttir byrja á sitthvorum kantinum og Berglind Björg Þorvaldsdóttir, markaskorari Íslands gegn Belgum, byrjar í fremstu víglínu.
Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.
Byrjunarliðið gegn Ítalíu í Manchester í dag!
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) July 14, 2022
This is how we start vs Italy in Manchester today!#dóttir pic.twitter.com/9R7TgYQTv1