Illa gekk að finna vináttulandsleiki fyrir íslenska liðið eins og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, rakti í samtali við Vísi í gær.
Nú er ljóst að eini leikur Íslands fyrir EM verður gegn Póllandi 29. júní. Íslenski hópurinn kemur saman til æfinga hér á landi 20. júní og fer til Póllands viku seinna. Íslendingar halda svo til Þýskalands 1. júlí og æfa þar áður en þeir fara til Englands 6. júlí. Fyrsti leikur Íslands á EM er svo gegn Belgíu 10. júlí.
Íslenski EM-hópurinn verður kynntur í næstu viku. Hann verður skipaður 23 leikmönnum.
Ísland og Pólland hafa mæst fjórum sinnum áður í A-landsleik kvenna. Íslendingar hafa unnið þrjá leiki og einu sinni orðið jafnt. Í fyrsta leik þjóðanna, 13. september 2003, vann Ísland 10-0 sigur. Það er stærsti ósigur í sögu pólska landsliðsins. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sína fyrstu þrennu fyrir íslenska liðið í þeim leik.
Pólland er í 33. sæti styrkleikalista FIFA. Pólverjar hafa tapað fjórum af fimm leikjum sínum á þessu ári.