Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Maskínu sem framkvæmd var þann 29. apríl til 4. maí síðastliðinn.
Þar má sjá að flestir þeirra sem tóku afstöðu, eða fjórðungur, spá Íslandi 16. til 20. sæti, sem myndi þýða að atriði Íslands komist upp úr undanúrslitariðlinum annað kvöld. Öðruvísi gæti Ísland ekki endað í einu af þessum sætum, þar sem 26 atriði taka þátt á úrslitakvöldinu næstkomandi laugardag.
Samkvæmt samantekt Eurovision World spá veðbankar framlagi Íslands í ár 33. sæti í heildarkeppninni og 13. sæti í fyrri undanúrslitinum annað kvöld.
Fimmtán prósent þeirra sem tóku þátt í Maskínu eru svipað svartsýn og veðbankarnir og spá Íslandi einu af fimm neðstu sætunum, 36. til 40. sæti. Níu prósent spá Systrunum 31. til 35. sæti.
Tólf prósent spá laginu 6. til 10. sæti, tíu prósent spá laginu 11. til 15. sæti, sama hlutfall spáir 21. til 26. sæti.
Athygli vekur að fæstir spá laginu verulega góðum árangri, eða 1. til 5. sæti, aðeins sex prósent.
Íbúar Austurlands svartsýnastir
Sé litið á niðurstöður könnunarinnar út frá búsetu eru íbúar á Austurlandi þeir svartsýnustu, 27,2 prósent þeirra telja að lagið muni enda í einu af fimm neðstu sætunum.
Íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur eru bjartsýnastir. 8,5 prósent þeirra telja að Systurnar hreppi eitt af fimm efstu sætunum.
Sé litið til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsmenn Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins eru bjartsýnastir á gengi Íslands. Fimmtungur þeirra telur að Ísland endi í einu af fimm efstu sætunum.
Miðflokksmenn eru áberandi svartsýnastir en 39 prósent þeirra telja að Með hækkandi sól endi í einu af fimm neðstu sætunum. Næst svartsýnastir eru Framsóknarmenn, 16,5 prósent þeirra eru sammála Miðflokksmönnum.
Systurnar stíga á svið í Tórínó annað kvöld í fyrri undanúrslitum Eurovision.
Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Dóra Júlía Agnarsdóttir eru fulltrúar fréttastofunnar á Eurovision í Tórínó á Ítalíu. Munu þær birta fréttir, viðtöl, hlaðvörp og auðvitað líka reglulega þætti af Júrógarðinum.
Alla umfjöllun okkar um Eurovision keppnina má finna HÉR á Lífinu á Vísi.