Ísraelskir fréttamiðlar hafa greint frá því að tveir menn hafi ráðist á vegfarendur í almenningsgarði í Elad vopnaðir exi og hnífum. Mannanna er nú leitað og lögregla hefur sett upp vegatálma víða um borgina og leitar í bílum sem hafa verið stoppaðir. Í dag er þjóðhátíðardagur Ísrael og stofnun ísraelska ríkisins fagnað.
Borgaryfirvöld í Elad hafa fyrirskipað fólki að halda sig innandyra í völd. Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins um málið að meirihluti íbúa borgarinnar séu strangtrúaðir gyðingar (e. ultra-Orthodox).
„Gleðin sem fylgir þjoðhátíðardegi okkar hætti snögglega. Árásin í Elad er hjartanu og sálinni áfall,“ skrifar Yair Lapid utanríkisráðherra Ísrael á Twitter.
שמחת יום העצמאות נקטעה ברגע. פיגוע רצחני באלעד מחריד את הלב והנשמה. שלושה נרצחו ועוד שלושה נפצעו בידי מחבלים שפלים. אני שולח תנחומים מעומק הלב למשפחות שאיבדו הערב את היקרים להן מכל, ומתפלל עם כל בית ישראל לשלומם של הפצועים.
— יאיר לפיד - Yair Lapid🟠 (@yairlapid) May 5, 2022
Undanfarnar vikur hefur árásum á ísraelska gyðinga fjölgað gífurlega en fleiri hafa ekki fallið í slíkum árásum í Ísrael síðan 2006. Fram kemur í frétt BBC að flestar árásanna hafi Palestínumenn eða ísraelskir arabar framið.
Sextán Ísraelar, þar á meðal einn lögreglumaður af ísraelskum-arabískum uppruna, hafa fallið og tveir Úkraínumenn. Árásirnar hafa allar verið í Ísrael og á Vesturbakkanum.
Ísraelsk stjórnvöld hafa svarað árásahrinunni með því að framkvæma áhlaup á palestínska bæi, þar sem átök hafa brotist út og minnst 26 fallið, þar af almennnir borgara.
Ísrael var stofnað þann 14. maí 1948 en þjóðhátíðardagurinn fellur ekki alltaf á sama dag á hverju ári þar sem miðað er við hebreska dagatalið. Þann 15. maí ár hvert syrgja Palestínumenn stofnun ríkisins en dagurinn kallast al-Naqba, sem á arabísku þýðir hamfarir eða stórslys.