Körfubolti

Jordan Poole leiddi Stríðsmennina til sigurs í endurkomu Curry

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jordan Poole fór fyrir liði Golden State Warriors í nótt.
Jordan Poole fór fyrir liði Golden State Warriors í nótt. Ezra Shaw/Getty Images

Úslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta hófst í nótt í allri sinni dýrð með fjórum leikjum. Jordan Poole var allt í öllu þegar Golden State Warriors vann góðan 16 stiga sigur gegn Denver Nuggets, 123-107, í fyrsta leik Steph Curry með liðinu í rúman mánuð.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og það voru gestirnir frá Denver sem leiddu með einu stigi þegar fyrsta leikhluta lauk, 27-26. Stríðsmennirnir tóku þó almennilega við sér í öðrum leikhluta og skoruðu 32 stig gegn 20 stigum gestanna og fóru því með 11 stiga forskot inn í hálfleikinn, staðan 58-47.

Heimamenn juku forskot sitt svo enn frekar í þriðja leikhluta og munurinn var orðinn 20 stig þegar lokaleikhlutinn rann upp. Heimamenn gátu því siglt heim nokkuð öruggum 16 stiga sigri, 123-107, og leiða einvígið nú 1-0.

Jordan Poole var stigahæstur í liði Golden State með 30 stig, en Steph Curry, sem var að spila sinn fyrsta leik síðan 16. mars, skoraði 16. Í liði gestanna var Nikola Jokic atkvæðamestur með 25 stig og tíu fráköst.

Þá gerði lið Minnesota Timberwolves sér lítið fyrir og vann 13 stiga útisigur á Memphis Grizzlies. Minnesota endaði í sjöunda sæti Vesturdeildarinnar en Memphis liðið í öðru og því um nokkuð óvænt úrslit að ræða.

Anthony Edwards fór fyrir Minnesota í stigaskorun og setti niður 36 stig, en liðsfélagi hans, Karl-Anthony Towns, skoraði 29 og tók 13 fráköst.

Úrslit næturinnar

Utah Jazz 99-93 Dallas Mavericks

Minnesota Timberwolves 130-117 Memphis Grizzlies

Toronto Raptors 111-131 Philadelphia 76ers

Denver Nuggets 107-123 Golden State Warriors

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×