Fótbolti

Ronaldo: Benzema á að fá Ballon d'Or

Atli Arason skrifar
Karim Benzema hefur átt frábært tímabil hjá Real Madrid.
Karim Benzema hefur átt frábært tímabil hjá Real Madrid. EPA-EFE/NEIL HALL

Brasilíska goðsögnin Ronaldo Nazario telur að Karim Benzema, framherji Real Madrid, eigi skilið að fá Ballon d'Or verðlaunin sem veitt eru besta knattspyrnumanni heims ár hvert.

Ronaldo vann Ballon d'Or sjálfur tvisvar sinnum á sínum ferli en aðeins fimm leikmenn hafa unnið verðlaunin oftar, Van Basten, Platini, Cruyff, Messi og Cristiano Ronaldo.

„Benzema á að fá Ballon d'Or verðlaunin. Ég er búinn að vera að segja þetta í mörg ár en hef alltaf hlotið mikla gagnrýni fyrir það,“ sagði Ronaldo á Sky Sports Italia í gær eftir leik Real Madrid og Chelsea í Meistaradeildinni.

Real Madrid sló Evrópumeistara Chelsea út eftir samanlagðan 5-4 sigur. Benzema skoraði fjögur mörk í einvíginu.

„Benzema á þetta skilið, hann er frábær leikmaður,“ bætti Ronaldo við.

Benzema hefur aldrei áður unnið Ballon d'Or verðlaunin eftirsóttu. Hinn 34 ára gamli Benzema er búinn eiga frábært leiktímabil en ásamt því að leggja upp 13 mörk hefur franski framherjinn skorað 38 mörk í 38 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×