Katrín Halldóra syngur lög Jóns Múla er fyrsta sólóplata söngkonunnar en Haukur Gröndal útsetur lögin.
„Þetta verður tónlistarveisla og ekki til betri leið til þess að byrja páskana. Ég verð með sjö manna hljómsveit með mér á sviðinu og Páll Óskar er sérstakur gestur.“

„Þeir bræður Jón Múli og Jónas voru snillingar og sömdu mörg okkar þekktustu og vinsælustu dægurlög. Þeir unnu mikið saman og höfðu þann háttinn á að Jón Múli samdi lögin alltaf fyrst og svo samdi Jónas textana. Sjálf get ég ekki gert upp á milli laganna eftir þá en held mikið upp á Augun þín blá og Í hjarta þér. Svo finnst mér Blóm á þakinu ofboðslega fallegt lag og texti,“ segir Katrín Halldóra og er augljóslega á heimavelli í þessum gömlu dægurperlum.
„Þessi lög henta mér mjög vel og það er virkilega gaman að syngja þau. Sem leikkona skipta textar mig alltaf miklu máli og þegar svona góð lög og vandaðir textar fara saman getur ekkert klikkað,“ segir hún.

Katrín Halldóra lærði söng í Danmörku áður en hún fór í leiklistarnámið og var á djass og rokkbraut FÍH. Hún segir söng- og leiklist ólíka miðla en frábært að geta blandað þeim saman. Katrín Halldóra bræddi til að mynda hjörtu áhorfenda eftirminnilega í söngleiknum Ellý.
„Ellý var ótrúlegt ævintýri, það rann allt svo auðveldlega fram. Ég hafði sungið lögin lengi áður en ég fór að leika hana og mér finnst alltaf gaman að vinna með það sem hreyfir við mér hverju sinni. Þá nýt ég mín best. En það er allt öðruvísi að syngja á tónleikum eða leika. Í leikriti er maður í karakter og breytir sér í aðra manneskju sem hugsar og gerir annað en maður sjálfur en þegar ég syng fer ég í ferðalag með tónlistinni og er meira ég sjálf,“ segir Katrín Halldóra.

Um þessar mundir leikur Katrín Halldóra í söngleiknum Sem á himni og Ást og upplýsingum í Þjóðleikhúsinu, auk þess sem hún treður upp sem söngkona „út um allt“ eins og hún orðar það. Hún er einnig farin að leggja drög að næstu plötu en stefnir á náðugt páskafrí eftir tónleikana í Eldborg. „Þetta verða kósý páskar hjá mér, í bústað með fjölskyldunni. Það verður kærkomið frí eftir törnina.“