„Á meðan á því stóð þá fannst mér mjög erfitt að tala um það og segja fólki frá því. Ófrjósemi er rosalega mikið leyndarmál og fólki finnst erfitt að tala um þetta. En þetta er mjög algengt, tölurnar segja okkur að það er einn af hverjum sex að kljást við þetta sem er gríðarlegur fjöldi.“
Í viðtali í Einkalífinu segir Tinna að eftir að hafa gengið í gegnum þessa reynslu hafi hún fundið mikla þörf til að deila henni með öðrum í sömu stöðu og talaði því mjög opinskátt um ófrjósemina.
„Ég vissi að með því að segja frá því að þetta hafi á endanum tekist hjá mér, væri ég að gefa öðrum von.“
Þetta erfiða verkefni hafði mikil áhrif á Tinnu og hennar andlegu líðan en hún kom sterkari út úr þessari lífsreynslu.
„Mér fannst ég hafa náð í lífinu þangað sem ég vildi ná. Ég var búin að ná toppnum. Fyrir mér er móðurhlutverkið það stærsta, það mikilvægasta og þakklátasta af þessu öllu.“
Mikilvægt að halda í vonina
Tinna leit á þetta þannig að hún hefði náð að vinna stærsta sigurinn og allir ósigrarnir yrðu nú mun auðveldari. Þetta gaf henni líka aukið sjálfstraust og varð til þess að hún lét leikstjóradrauminn rætast.
„Það efldi mig að ná þessu markmiði,“ útskýrir Tinna. „Ég var sterkari en ég hélt.“
Hún þakkar eiginmanninum fyrir að hún hafi ekki gefist upp eða bugast, hann hafi haldið svo fast í þá von að þetta myndi takast hjá þeim.
„Ef þú hefur hana ekki þá er þetta nánast ómögulegt.“
Þetta var samt sem áður erfitt fyrir sambandið þeirra, þessi stöðugu vonbrigði á meðan þau voru að kljást við þessa óútskýrðu ófrjósemi.
„Það er gríðarlega mikið sem öll sambönd þurfa að þola í sambandi við þetta, sem er eðlilegt.“
Í nýjasta þættinum af Einkalífinu ræddi Tinna um ófrjósemina, móðurhlutverkið, mikilvægi þess að setja fólki mörk og einnig leiklistina, ferilinn og kvikmyndina Skjálfta, sem frumsýnd var hér á landi í síðustu viku. Viðtalið má heyra í spilaranum hér ofar í fréttinni.