Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er manneskja sem elskar að skapa, fann mér vettvang í tónlist og vinn í útvarpi þar sem ég fæ að blómstra. Ég er kona með stórt hjarta og vil að allir séu glaðir og hamingjusamir, þess vegna geri ég mjög mikið í því að reyna að vera gleðigjafi og færa fólki good vibes only orku.
Hvað veitir þér innblástur?
Tónlist númer eitt, tvö og þrjú og horfa á annað tónlistarfólk koma fram á tónleikum.
Það er ekkert meira insperandi en að horfa á flotta tónleika og muna það að ef að maður leggur sig fram er gjörsamlega allt geranlegt.
Það er bara í þínum höndum hvernig þú ætlar að koma þér á þann stað.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Fyrir mér er það að komast í aðeins í burtu frá áreiti og álagi. Ég reyni að vinna þannig að einn daginn komist ég svo í gott og verðskuldað frí. Fara til útlanda eða jafnvel bara út á land, þar sem ég bý í borginni.
Ég gerði það áður fyrr að fara erlendis í frí og hlaða batteríin í öðru landi í minnst þrjá mánuði og kom svo heim stútfull af orku. Þar stundaði ég líkamsrækt, borðaði holt, svaf mikið og hugsaði ekki um neitt nema mína heilsu.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Ég er svo heppin að enginn dagur er eins. Ég byrja samt alltaf í útvarps stólnum á KissFm. Undanfarið hef ég hitt Reykjavíkurdæturnar mínar á hverjum degi, þar sköpum við og plönum framtíðina. Svo reyni ég að gera eitthvað upplífgandi með kærustunni og nýti kvöldið í faðmi hennar.
Uppáhalds lag og af hverju?
Þessi spurning er alltaf erfið.... Maður segir allt of oft „vá þetta er eitt af mínum uppáhalds lögum“! Núna er það örugglega Strong með London Grammar.
Það er bara svo ótrúlega fallegt og tekur mig á einhvern ótrúlegan stað þar sem allt virðist vera geranlegt.
Uppáhalds matur og af hverju?
Hreindýrabollurnar hjá Valgerði, ömmu kærustunnar. Ég fer í einhvern annan heim þegar ég borða þær. Þá er það helst sósan. Takk fyrir þessar bollur Valgerður.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Þetta er mesta klisjan en það er í alvörunni bara hvað maður á mikið af góðu fólki í kringum sig. Þetta er fólkið sem litar líf mitt og gerir það skemmtilegt. Svo er náttúrulega eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að spila erlendis með Reykjavíkurdætrum og fá að ferðast út um allan heim.
Og að lokum takast á við ný verkefni. Eitt klárast og annað tekur við. Lífið maður.