Körfubolti

Nurkic gerði sig líklegan að hjóla í stuðningsmann Pacers í nótt

Atli Arason skrifar
Nurkic rífur símann úr höndum stuðningsmanns Pacers
Nurkic rífur símann úr höndum stuðningsmanns Pacers Skjáskot - Instagram

Miðherji Portland Trail Blazers, Jusuf Nurkic, lenti í útistöðum við aðdáanda Indiana Pacers eftir leik liðanna í nótt. Nurkic, sem spilaði ekki leikinn vegna meiðsla, gekk þá að stuðningsmanni Pacers sem sat á fremsta bekk, reif af honum símann og kastaði símanum svo upp í stúku.

Myndbandið hefur farið eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum. Ekki liggur fyrir hvað varð til þess að Nurkic hegðaði sér á þennan hátt en ljóst þykir að eitthvað hefur verið sagt sem Nurkic líkaði ekki við. Trail Blazers tapaði leiknum með 31 stigi, 129-98.

Það eru ekki nema fjórir mánuðir síðan víkja þurfti stuðningsmönnum Pacers af velli í leik liðsins við Los Angeles Lakers fyrir að segja einhver ófögur orð við LeBron James og þar með brjóta siðareglur aðdáanda á NBA leikjum.

Nurkic hefur ekki spilað leik síðan í febrúar, þegar Portland vann Memphis Grizzlies á útivelli með fjórum stigum.

Nurkic þjáist af iljarfelsbólgu (e. plantar fascitis) en upphaflega stóð til að hann yrði frá í a.m.k. fjórar vikur en óljóst er hvenær hann getur snúið aftur á leikvöllinn. 

Þessi miðherji frá Bosníu er með 15 stig, 11,1 frákast og 2,8 stoðsendingar að meðaltali á leik á tímabilinu. Nurkic hefur gert 30 tvöfaldar tvennur í þeim 56 leikjum sem hann hefur náð í ár. Það væri því afar slæmt fyrir Trail Blazers ef Nurkic verður dæmdur í bann fyrir framkomu sína eftir leikinn í gær en Trail Blazers er í 12. sæti austurdeildar. Tapið gegn Grizzlies var fjórða tap þeirra í röð en Trail Blazers hafa nú alls tapað 10 af síðustu 11 leikjum síðan Nurkic meiddist.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×