Körfubolti

Nets sektað um rúm­lega sex og hálfa milljón fyrir að hleypa Kyri­e inn í klefa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kyrie á umræddum leik.
Kyrie á umræddum leik. Sarah Stier/Getty Images

Það vakti mikla athygli þegar Kyrie Irving fékk að vera meðal áhorfenda á leik New York Knicks og Brooklyn Nets en reglur NBA-deildarinnar komu í veg fyrir að hann mætti spila leikinn. Nets hefur nú verið sektað fyrir að leyfa leikmanninum að fara inn í klefa.

Brooklyn Nets vann nágranna sína í New York Knicks á sunnudag. Leikurinn hefur verið umtalaður síðan og þá ekki eingöngu vegna frábærrar frammistöðu Kevins Durant á vellinum eða í viðtali eftir leik.

Eins og áður hefur komið fram mátti Kyrie Irving ekki vera með Nets inn á vellinum en hann mátti mæta sem áhorfandi. Sat hann alveg upp við varamannabekk Nets. Það voru ekki einu samskipti hans við liðsfélaga sína í leiknum en nú hefur komið í ljós að hann fékk að fara inn í klefa með liðinu.

Er það brot á heilsu- og öryggisreglum NBA-deildarinnar. Því hefur félagið verið sektað um 50 þúsund Bandaríkjadali eða rúmar 6,6 milljónir íslenskra króna.

Nets er í 8. sæti Austurdeildarinnar með 35 sigra og 33 töp í 68 leikjum.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×