Körfubolti

Enn tapar Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook reynir að stela boltanum af Luka Doncic.
Russell Westbrook reynir að stela boltanum af Luka Doncic. getty/Ronald Martinez

Þrátt fyrir að hafa misst niður gott forskot vann Dallas Mavericks góðan sigur á Los Angeles Lakers, 104-109, í NBA-deildinni í nótt.

Dallas komst mest 21 stigi yfir en Lakers vann forskotið upp og þegar sjö mínútur voru eftir leiddi liðið með sex stigum, 94-100. En þá stigu leikmenn Dallas á bensíngjöfina og lönduðu sínum áttunda sigri í síðustu tíu leikjum.

Luka Doncic skoraði 25 stig fyrir Dallas og Jalen Brunson 22. LeBron James skoraði 26 stig og tók tólf fráköst í liði Lakers sem hefur tapað þremur leikjum í röð.

Karl-Anthony Towns átti stórleik þegar Minnesota Timberwolves sigraði Golden State Warriors, 129-114. Hann skoraði 39 stig og tók níu fráköst. D'Angelo Russell skoraði 22 stig fyrir Úlfana og Malik Beasley tuttugu. Minnesota er í 7. sæti Vesturdeildarinnar.

Stephen Curry skoraði 34 stig fyrir Golden State sem hefur tapað tveimur leikjum í röð. Liðið er í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Gott gengi Boston Celtics hélt áfram þegar liðið vann Atlanta Hawks á heimavelli, 107-98. Jayson Tatum skoraði 33 stig fyrir Boston en hin stjarna liðsins, Jaylen Brown, fór meiddur af velli snemma leiks.

Grant Williams og Derrick White skoruðu átján stig hvor fyrir Boston sem er í 6. sæti Austurdeildarinnar.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 104-109 Dallas
  • Minnesota 129-114 Golden State
  • Boston 107-98 Atlanta
  • Washington 116-113 Detroit
  • Toronto 109-108 Brooklyn
  • Houston 100-113 LA Clippers
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×