Körfubolti

Jordan myndbandið í Bulls-höllinni kveikti í stjörnu mótherjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan og Ja Morant.  Jordan vann alla sex meistaratitla sína með Chicago Bulls áður en Morant fæddist.
Michael Jordan og Ja Morant.  Jordan vann alla sex meistaratitla sína með Chicago Bulls áður en Morant fæddist. Samsett/Getty

Chicago Bulls hugsar sig kannski aðeins betur um hvaða myndbönd þeir sýna í hléum á leikjum sínum. Þeir hefðu betur sleppt því í leiknum á móti Memphis Grizzlies um helgina.

Tilþrifamyndbandið með Jordan kveikti nefnilega verulega í stærstu stjörnu mótherjanna sem fór á mikið flug eftir að hann sjá taktana með Jordan.

Michael Jordan er að flestum talinn vera besti körfuboltamaður allra tíma en auk þess að skila titlum, tölfræði og verðlaunum í hús þá var hann mikill tilþrifakarl.

Hann er líka fyrirmynd margra leikmanna og það bættist örugglega ný kynslóð í hópinn þegar heimildarmyndin „The Last Dance“ var sýnd í miðjum kórónuveirufaraldri og þegar enginn körfubolti var í gangi í heiminum.

Ja Morant er ein af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar í dag en hann fæddist ekki fyrr en í ágúst 1999 eða rúmu ári eftir að Jordan vann sinn sjötta og síðasta titil með Chicago Bulls.

Morant er á þriðja tímabili með Memphis Grizzlies en hefur tekið mikið stökk á þessu tímabili þar sem hann er með 27,1 stig að meðaltali í leik eftir að hafa skorað 17,8 og 19,1 stig í leik á fyrstu tímabilunum sínum.

Í umræddum leik þá var Morant kominn með sextán stig í hálfleik sem er alls ekki slæmt en þá sá hann myndbandið góða.

„Ég sá Michael Jordan myndbandið sem þeir sýndu í leikhléinu og það kom mér í gang,“ sagði Ja Morant. Hann skoraði alls 30 stig í seinni hálfleiknum þar sem hann hitti úr 8 af 14 skotum utan af velli og 13 af 15 vítum sínum.

Memphis Grizzlies endaði á því að vinna leikinn með sex stigum en lykillinn að því var þriðji leikhlutinn þar sem Morant skoraði tuttugu stig eftir að hafa hitt úr sex af sjö skotum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×