Körfubolti

Irving sá um Bucks

Atli Arason skrifar
Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets
Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets AP/Frank Franklin II

Það voru sex leikir í NBA deildinni í nótt en það var mikið skorað í flestum leikjum næturnar. Meistarar Milwaukee Bucks töpuðu gegn Brooklyn Nets þökk sé stórleik hins umdeilda Kyrie Irving.

Milwaukee Bucks 123 – 126 Brooklyn Nets

Meistarar Bucks töpuðu sínum öðrum leik í röð, í þetta skipti á heimavelli gegn Nets. Kyrie Irving var stigahæsti leikmaður vallarins með 38 stig fyrir Nets en allir 10 leikmenn Nets settu stig á töfluna á meðan Bucks fengu bara 13 stig af bekknum. Atkvæðamestur í liði Bucks var Bobby Portis með 30 stig og 12 fráköst. Með tapinu falla Bucks niður í fimmta sæti austurdeildarinnar en Nets eru í því áttunda.

  

Cleveland Cavaliers 92 – 86 Washington Wizards

Leikur Cavs og Wizards var jafn og spennandi allan tímann en Cavaliers höfðu betur undir lok leiksins. Hinn finnski Lauri Markkanen var stigahæstur hjá Cavaliers með 23 stig. Kyle Kuzma var með tvöfalda tvennu hjá Wizards, 34 stig og 13 fráköst. Cavaliers eru nú komnir upp í fjórða sæti austurdeildar á meðan Wizards eru í því ellefta.

 

Denver Nuggets 115-110 Sacramento Kings

Nuggets unnu sinn fimmta leik í röð sem er nú lengsta sigurgangan í deildinni. Nikola Jokić var atkvæðamestur í liði Nuggets en Jokić var með þrefalda tvennu, 18 stig, 11 stoðsendingar og 10 fráköst. Aaron Gordon var þó stigahæstur með 23 stig. Hjá Kings var það De‘Aaron Fox sem hélt þeim á lífi lengst af en Fox gerði 26 stig ásamt því að gefa 10 stoðsendingar en það dugði Kings ekki til. Kings er því áfram í 13 sæti vesturdeildar en Nuggets eru í sjötta sæti með 35 sigra, jafn marga og Mavericks sem eru í fimmta sæti.

 

Miami Heat 133 – 129 San Antonio Spurs

Eftir öfluga byrjun hjá Spurs þá koma Heat til baka og vann að lokum fjögurra stiga sigur. Bam Adebayo var stigahæstur hjá Bulls með 36 stig á meðan stigaskor Spurs dreifðist vel á liðið. Devin Vassell, Keita Bates-Diop og Lonnie Walker voru stigahæstir hjá Spurs, allir með 22 stig.

Heat er nú eitt í toppsæti austurdeildar á meðan Spurs eru í 12. sæti vesturdeildar.

 

Chicago Bulls 110 – 116 Memphis Grizzlies

Eftir sex sigurleiki í röð voru Bulls stöðvaðir á heimavelli gegn Grizzlies. Ja Morant átti stórleik en hann gerði alls 46 stig í þessum leik sem er persónulegt met hjá Morant. DeMar DeRozan var stigahæstur hjá Bulls með 31 stig. Með tapinu missir Bulls toppsætið til Heat og eru nú í öðru sæti austurdeildar með 39 sigra. Grizzlies halda þriðja sæti vesturdeildar með 42 sigra.

 

Atlanta Hawks 127 – 100 Toronto Raptors

Hawks unnu sannfærandi sigur á Rapors þar sem Trae Young fór á kostum og gerði 41 stig ásamt því að gefa 11 stoðsendingar. Fred VanVleet var atkvæðamestur hjá Raptors með 24 stig.

Hawks eru í tíunda sæti austurdeildar, einungis þremur sigrum á eftir Raptors sem eru í því sjöunda.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×