Körfubolti

Jón Axel búinn að græja veitingastað í Bologna

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Axel Guðmundsson á ferðinni gegn Ítalíu í gær. Hann naut þess að spila fyrir framan fullan sal af fólki heima á Íslandi, eftir langa bið.
Jón Axel Guðmundsson á ferðinni gegn Ítalíu í gær. Hann naut þess að spila fyrir framan fullan sal af fólki heima á Íslandi, eftir langa bið. VÍSIR/BÁRA

Jón Axel Guðmundsson er á leið til Bologna á Ítalíu, þar sem hann spilaði fyrri hluta leiktíðar, til að mæta Ítölum öðru sinni í undankeppni HM í körfubolta. Ísland vann þegar liðin mættust í Ólafssal í gær í tvíframlengdum trylli.

„Þetta er mjög stórt en á sama tíma þurfum við að reyna að róa okkur niður og koma tilbúnir aftur á sunnudaginn,“ sagði Jón Axel við Vísi í gærkvöld, eftir sigurinn magnaða á Ítalíu, og bætti við:

„En þetta er risastórt fyrir Íslands hönd. Þetta er eitt stærsta liðið í heimi og þeir voru að spila á Ólympíuleikunum í fyrrasumar, margir af þessum gæjum sem spiluðu núna, þannig að þetta er risastórt fyrir svona litla þjóð eins og Ísland.“

Klippa: Jón Axel eftir sigurinn gegn Ítalíu

Jón Axel naut þess í botn að spila fyrir framan fullan Ólafssal í Hafnarfirði í gærkvöld en nú er förinni heitið til Bologna þar sem hann lék með Fortitudo Bologna fyrri hluta leiktíðar. Má þá ekki slá því föstu að hann taki að sér leiðsögn í borginni?

„Þarf maður ekki að reyna að gera eitthvað? Koma okkur saman, fá „recovery“ og borða góðan mat. Fyrirliðinn í liðinu sem ég var með þarna úti var að senda á mig og spyrja hvort ég ætlaði ekki að kíkja á veitingastaðinn hjá honum. Við förum í góða máltíð þarna,“ sagði Jón Axel léttur í bragði.

Hann skoraði 11 stig og tók átta fráköst í gærkvöld, og var algjörlega óhræddur við að taka af skarið þegar spennan var sem mest undir lok leiks og í framlengingunum:

„Við erum allir vanir þessu, búnir að spila upp alla yngri flokka í jöfnum leikjum og þetta er ekkert öðruvísi. Áhorfendur gefa manni líka extra „búst“ svo það er mikilvægt að fá svona heimaleiki og geta spilað á Íslandi, því það vita allir að þegar það er stórmót þá kemur öll íslenska þjóðin saman og styður við bakið á öllum mönnum,“ sagði Jón Axel en viðtalið við hann má sjá í heild hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×