Körfubolti

Mark Cuban: Doncic óstöðvandi eftir að hafa fengið aðeins að heyra það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic hefur verið frábær með Dallas Mavericks síðustu vikur og liðið hefur líka brunað upp töfluna.
Luka Doncic hefur verið frábær með Dallas Mavericks síðustu vikur og liðið hefur líka brunað upp töfluna. AP/Matthew Hinton

Eigandi Dallas Mavericks í NBA deildinni í körfubolta er að sjálfsögðu ánægður með að vera með Slóvenann frábæra Luka Doncic í sínu liði en segir að það hafi orðið breyting á stjörnu liðsins um mitt tímabil.

Doncic kom ekki í nærri því nógu góðu formi inn í tímabilið og fékk talsverða gagnrýni á líkamlegt atgervi sitt framan af vetri.

„Ég held gagnrýnin hafi komið honum niður á jörðina. Hann var ekki hrifinn af því að vera gagnrýndur fyrir að vera of þungur og fann í framhaldinu agann sem verður að fylgja með,“ sagði Mark Cuban í þættinum 1310 The Ticket í Dallas.

„Allir íþróttamenn ganga í gegnum það að hlutirnir líta út fyrir að vera aðeins of auðveldir fyrir þá. Þú ert vanur því að vera bestur og átt auðvelt með að tryggja þér hrós. Svo þegar hlutirnir ganga ekki alveg eins og þú ætlaðir þá fær það þig til að endurskoða hlutina,“ sagði Cuban.

Doncic viðurkennir að hafa slakað aðeins of mikið á eftir Ólympíuleikana með slóvenska landsliðinu og áður en hann mætti í æfingabúðirnar með Dallas. Hann mætti alltof þungur til leiks og það sást. Hann hefur síðan skafið af sér meira en sjö kíló. Það má líka sjá breytinguna á tölum Luka Doncic.

Í fyrsta 21 leik tímabilsins þá var Doncic með 25,6 stig, 8,0 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali sem eru alls ekki slæmar tölur en Dallas liðið tapaði með 5,5 stigum að meðaltali þegar hann var inn á vellinum.

Doncic hefur hins vegar skipt um gír síðan. Í síðustu 23 leikjum er hann með 29,3 stig, 10,3 fráköst og 9,4 stoðsendingar að meðaltali í leik og Dallas liðið er að vinna með 13 stigum að meðaltali þegar hann er inn á gólfinu.

Doncic hækkaði þessar tölur enn frekar eftir að hann fékk ekkert atkvæði í kosningu blaðamanna á leikmönnum í Stjörnuleikinn. Í tíu leikjum síðan þá er hann með 35,4 stig, 10,3 fráköst og 9,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Hann veit hvað hann þarf að gera og áttaði sig loksins á því að til að verða bestur, og hann vill verða bestur, þá eru nokkur atriði sem hann þarf að vera með á hreinu. Síðan hann áttaði sig á því þá hefur hann verið óstöðvandi,“ sagði Mark Cuban.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×