Körfubolti

Valdi Brooklyn Nets fram yfir Lakers, Warriors, Clippers, Bucks og Bulls

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Goran Dragic átti stóran þátt í ævintýri Miami Heat í úrslitakeppninni 2020.
Goran Dragic átti stóran þátt í ævintýri Miami Heat í úrslitakeppninni 2020. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Slóvenski bakvörðurinn Goran Dragic hafði úr mörgum liðum að velja í NBA-deildinni eftir að hann fékk sig lausan frá San Antonio Spurs. Nú hefur hann valið sér lið.

Dragic byrjaði tímabilið með Toronto Raptors en var skipt til San Antonio Spurs á lokadegi leikmannaskiptagluggans. Spurs keypti síðan upp samning hans.

Dragic var því frjáls og gat fundið sér nýtt lið. Mörg lið höfðu áhuga á honum, lið eins og Los Angeles Lakers, Golden State Warriors, LA Clippers, Milwaukee Bucks og Chicago Bulls.

Slóveninn valdi hins vegar að semja við Brooklyn Nets út tímabilið og mun því hjálpa Kevin Durant, Kyrie Irving og nýja manninum Ben Simmons að landa titlinum þar.

Umboðsmaður Dragic staðfesti þetta við Adrian Wojnarowski hjá ESPN.

Goran Dragic er nú 35 ára en spilaði bara fimm leiki með Toronto áður en hann hætti að spila á meðan félagið fann lið sem vildi fá hann í skiptum.

Dragic er með 13,9 stig og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í 872 deildarleikjum í NBA en í úrslitakeppninni er hann aftur á móti með 14,9 stig og 3,6 stoðsendingar í 56 leikjum.

Hann fór með Miami Heat alla leið í úrslitin árið 2020 og var þá með 19 stig að meðaltali í leik áður en hann meiddist og gat lítið beitt sér í úrslitaeinvíginu á móti Los Angeles Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×