Körfubolti

Lebron James: Ég mun spila fyrir sama lið og sonur minn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
LeBron James
LeBron James EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

LeBron James, einn besti körfuboltamaður sögunnar, ætlar að ná að spila eitt tímabil í NBA deildinni með syni sínum, Bronny James. James segist munu fara til þess liðs sem sækir Bronny í NBA nýliðavalinu 2024.

James lét þetta falla á blaðamannafundi í Cleveland í Ohio þar sem stjörnuhelgi NBA fer fram þessa helgina. Lebron James er fæddur í Akron í Ohio ríki svo hann á sterka tengingu við ríkið.

„Síðasta árið mitt í deildinni mun vera með syni mínum. Þar sem Bronny verður, þar verð ég.“

Bronny James þykir efnilegur körfuboltamaður en má ekki vera þátttakandi í nýliðavalinu fyrr en vorið 2024 sem þýðir að James yrði orðinn 39 ára sama ár og sonurinn myndi í fyrsta lagi koma inn í NBA deildina.

Ef þetta yrði að veruleika þá væri það í fyrsta sinn sem feðgar spila í NBA deildinni á sama tíma og auðvitað væri það enn sérstakara ef þeim feðgum tækist að spila saman.

LeBron James er með lausan samning sumarið 2023 þannig að ef hann myndi einungis semja til eins árs það ár, þá gæti hann valið sér lið í kjölfarið og spilað með syni sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×