Erlent

28.000 konur sóttu um 30 störf í Sádi Arabíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðeins þrjú ár eru síðan konur gátu fengið ökuréttindi.
Aðeins þrjú ár eru síðan konur gátu fengið ökuréttindi. Getty

Tuttugu og átta þúsund konur sóttu um 30 lestarstjórastörf í Sádi Arabíu en aðeins um þrjú ár eru liðin frá því að stjórnvöld heimiluðu konum að aka bifreiðum.

Talsmenn fyrirtækisins Renfe, sem er spænskt, sagði að helmingur umsóknanna hefði þegar verið afskrifaður útfrá skilyrðum um menntun og enskukunnáttu. Unnið yrði úr restinni fyrir miðjan mars.

Hinar þrjátíu útvöldu munu aka hraðlestum á milli Mecca og Medina eftir að þær hafa lokið ársþjálfun á launum. Talsmenn Renfe segjast hafa metnað fyrir því að ráða fleiri konur til starfa en 80 karlar vinna við lestarstjórn í Sádi Arabíu og 50 til viðbótar eru í þjálfun.

Atvinnuþátttaka kvenna er takmörkuð í Sádi Arabíu enda hafa störf sem standa þeim til boða að mestu verið við kennslu og í heilbrigðisþjónustu. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði hefur hins vegar tvöfaldast á síðustu fimm árum og er nú um 33 prósent.

Stjórnvöld í landinu hafa freistað þess að leggja áherslu á framgöngu kvenna og aukið jafnrétti, á sama tíma og þau hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir ýmis mannréttindabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×