Heimamenn í Valencia byrjuðu þó betur og komust mest í ellefu stiga forystu í fyrsta leikhluta. Að honum loknum leiddu þeir með sjö stigum, en gestirnir í Virtus Bologna minnkuðu muninn niður í tvö stig áður en flautað var til hálfleiks. Staðan þegar gengið var til búningsherbergja var 40-38, Valencia í vil.
Martin og félagar skoruðu aðeins tólf stig gegn 25 stigum Bologna í þriðja leikhluta og gestirnir leiddu því með ellefu stigum þegar komið var að lokaleikhlutanum. Þá vöknuðu heimamenn til lífsins á ný og voru fljótir að vinna upp muninn. Þeir gjörsamlega keyrðu yfir andstæðinga sína á lokasprettinum og unnu að lokum sex stiga sigur, 83-77.
Martin skoraði tvö stig fyrir Valencia, tók eitt frákast og gaf fjórar stoðsendingar. Liðið situr í öðru sæti B-riðils með níu sigra í 13 leikjum, jafn marga sigra og topplið Gran Canaria sem hefur aðein leikið ellefu leiki.