Í opnu bréfi sem Young skrifaði til umboðsmanns síns og útgáfufyrirtækis og birtist á vef Young skrifaði tónlistarmaðurinn:
„Ég geri þetta vegna þess að Spotify er að dreifa fölskum upplýsingum um bóluefni sem getur leitt til dauða hjá þeim sem trúa þessum fölsku upplýsingum. Vinsamlegast bregðist við þessu í dag og haldið mér upplýstum um tímaáætlunina,“ sagði í bréfi Young.
Bréfið hefur verið fjarlægt af heimasíðu Young.
Young áréttaði að ákvörðun hans kæmi til vegna hlaðvarpsins The Joe Togan Experience sem er um þessar mundir vinsælasta hlaðvarpið á Spotify og eitt það vinsælasta í heimi. Rogan skrifaði undir samning við Spotify að andvirði um 130 milljarða íslenskra króna árið 2020 sem gaf Spotify einkarétt að þættinum.

Young sagðist í bréfinu finna að því að Spotify dreifði svo áhrifaríkum hlaðvarpsþætti og fyndi ekki til ábyrgðar þegar kæmi að dreifingu falsfrétta. Bréfið var stílað á umboðsmanninn Frank Gironda og Tom Corson, framkvæmdastjóra hjá Warner Records, útgáfufyrirtæki Young.
Gironda staðfesti við The Daily Beast að bréfið hefði verið skrifað af Young sem hefði sterkar skoðanir á málinu. Verið væri að vinna í því. Young væri í miklu uppnámi.
270 læknar, vísindamenn og heilbrigðisstarfsmenn skrifuðu í desember bréf til Spotify og óskuðu eftir því að streymisveitan brygðist við fölskum upplýsingum sem Rogan miðlaði í þætti sínum. Var vísað til viðtals Rogan við Robert Malone veirufræðing sem kom að mRNA tækninni sem leiddi til Covid-19 bóluefnanna.
Hópurinn gagnrýndi ýmsar samsæriskenningar sem Malone og Rogan héldu fram. Þeirra á meðal að sjúkrahús væru vísvitandi að flokka dauðsföll á spítölum af völdum Covid-19 og fullyrðingu Malone þess efnis að leiðtogar heimsins hefðu dáleitt almenning til að styðja bóluefni.
Fullrúar Spotify höfðu ekki brugðist við málinu þegar fréttin var skrifuð.