Fótbolti

Tolleruðu mótherja sem sneri aftur eftir tveggja ára fjarveru vegna heilaæxlis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virginia Torrecilla fékk flugferð frá leikmönnum Barcelona.
Virginia Torrecilla fékk flugferð frá leikmönnum Barcelona. getty/Angel Martinez

Leikmenn Barcelona sýndu sannan íþróttaanda í verki þegar þeir tolleruðu leikmann Atlético Madrid eftir leik liðanna í spænska ofurbikarnum í gær. Börsungar unnu hann, 7-0.

Virginia Torrecilla kom inn á sem varamaður þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þetta var fyrsti leikur hennar í tæp tvö ár. Torrecilla greindist með heilaæxli í maí 2020. Í kjölfarið gekkst hún undir aðgerð og svo lyfjameðferð.

Torrecilla sneri aftur til æfinga í mars í fyrra og lék loks sinn fyrsta leik með Atlético eftir veikindin í gær. Það var hennar fyrsti keppnisleikur síðan hún lék með spænska landsliðinu í 1-0 sigri á því enska á SheBelieves Cup í mars 2020.

Það voru ekki bara samherjar Torrecillu sem voru ánægðir að sjá hana aftur inni á vellinum heldur einnig mótherjarnir í Barcelona. Og eftir leikinn tolleruðu Börsungar Torrecillu eins og sjá má hér fyrir neðan.

Torrecilla lék með Barcelona á árunum 2012-15 og varð þrívegis spænskur meistari með liðinu. Þá hefur hún leikið með mörgum leikmönnum liðsins í spænska landsliðinu. Hin 27 ára Torrecilla hefur leikið 66 landsleiki og skorað í þeim sjö mörk.

Eftir fjögur ár hjá Montpellier í Frakklandi gekk Torrecilla í raðir Atlético sumarið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×