Elvar og félagar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu 17 af fyrstu 19 stigum leiksins. Liðið náði mest 24 stiga forskoti í fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 35-15.
Þeir bættu svo í fyrir hálfleik og juku forskot sitt í 33 stig þegar mest var. Liðið skoraði 67 stig í fyrri hálfleik og þegar gengið var til búningsherbergja var munurinn 30 stig, staðan 67-37.
Eftir þessa frammistöðu í fyrri hálfleik var sá síðari í raun bara formsatriði. Elvar og félagar juku forskot sitt í 43 stig þegar mest lét í þriðja leikhluta, og náðu 46 stiga forskoti í stöðunni 99-53 í lokaleikhlutanum. Að lokum vann liðið með 40 stiga mun, 117-77.
Eins og áður segir skoraði Elvar 14 stig fyrir Antwerp Giants og var þriðji stigahæsti maður liðsins. Auk þess tók hann fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar.