Þann sama dag kemur einnig út tónlistarmyndband við lagið sem aðdáendur hafa beðið spenntir eftir. Það er mikil ánægja að tilkynna að Vísir og Stöð 2 Vísir munu frumsýna myndbandið í hádeginu á morgun, fimmtudaginn 20. janúar, klukkan 12:15. Myndbandið hefur aðeins verið forsýnt á tónleikum Bríetar í Hörpu fyrr í vetur.
Cold Feet var samið af Bríeti sjálfri og Pálma Ragnari Ásgeirssyni en þau hafa átt í öflugu tónlistar samstarfi á undanförnum árum. Lagið er að sögn Bríetar tilfinningaríkt, hreinskilið og persónulegt popplag en myndbandið var tekið upp á stysta degi ársins 2019. Í viðtali við Vísi fyrr í mánuðinum segir Bríet að minningar um að sitja í köldu glerboxi í fjóra klukkutíma sitji eftir. Sú lýsing gefur til kynna að það megi búast við ýmsu áhugaverðu í myndbandinu.
Það má með sanni segja að spennandi tímar séu framundan hjá þessari söngkonu en Bríet stefnir nú á að fara út fyrir landsteinana og er þessi útgáfa fyrsta skref í átt að erlendum markaði. Hún kom fyrst fram á sjónarsvið með lagið In Too Deep árið 2017 og hefur náð gríðarlegum árangri síðan í íslensku tónlistarlífi.
Hægt er að fylgjast með frumsýningunni inn á Vísi og Stöð 2 Vísi á slaginu klukkan 12:15 á morgun.