Körfubolti

Fór yfir fimmtíu stig eftir sekt fyrir að blóta áhorfanda

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Durant treður gegn Detroit Pistons og nær í tvö af 51 stigi sínu í leiknum.
Kevin Durant treður gegn Detroit Pistons og nær í tvö af 51 stigi sínu í leiknum. AP/Carlos Osorio

Kevin Durant skoraði yfir fimmtíu stig í einum og sama leiknum og LeBron James átti stórleik fyrir LA Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Durant skoraði 51 stig fyrir Brooklyn Nets í 116-104 sigri gegn Detroit Pistons. Enginn hefur skorað fleiri stig í einum og sama leiknum í vetur en Stephen Curry átti metið á leiktíðinni með 50 stiga leik sínum gegn Atlanta Hawks 8. nóvember.

Durant var í miklu stuði þrátt fyrir að hafa skömmu fyrir leik verið sektaður af deildinni um 25.000 Bandaríkjadali. Sektina hlaut hann fyrir að beina blótsyrðum að áhorfanda í sigrinum gegn Atlanta á föstudagskvöld, eftir að áhorfandinn kallaði: „Durant, hættu að grenja!“

Brooklyn var án James Harden en það kom ekki að sök og Durant náði að minnsta kosti 10 stigum í hverjum einasta leikhluta. Hann var líka alveg meðvitaður um að hann væri nálægt 50 stigum í lokin:

„Ég vissi að ég þyrfti sennilega að sjá um að skora aðeins meira að þessu sinni,“ sagði Durant eftir þennan sjöunda leik sinn á ferlinum í NBA-deildinni þar sem hann skorar að minnsta kosti 50 stig.

„Við misstum boltann til þeirra oftar en við ættum að gera, og ég gerði það eins og hver annars, svo ég taldi best að halda áfram að skjóta,“ sagði Durant.

Brooklyn er efst í austurdeild með 19 sigra og 8 töp. Detroit er hins vegar á botni deildarinnar með aðeins 4 sigra en 22 töp.

James með töfra gegn Magic

LeBron James var með þrefalda tvennu og varði þrjú skot með miklum tilþrifum í 106-94 sigri LA Lakers á Orlando Magic.

James skoraði 30 stig í leiknum, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Þetta var annar sigur Lakers í röð og liðið er í 6. sæti vesturdeildarinnar en Orlando hefur aðeins unnið 5 af 28 leikjum sínum og er í næstneðsta sæti austurdeildar.

Úrslitin í gær:

  • New York 97-112 Milwaukee
  • Detroit 104-116 Brooklyn
  • Oklahoma 84-103 Dallas
  • San Antonio 112-97 New Orleans
  • Portland 111-116 Minnesota
  • LA Lakers 106-94 Orlando


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×