Formúla 1

Hamilton hafði betur eftir dramatíska keppni | Allt jafnt fyrir síðasta kapp­akstur ársins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewis Hamilton vann hádramatískan sigur í Sádi-Arabíu.
Lewis Hamilton vann hádramatískan sigur í Sádi-Arabíu. Dan Mullan/Getty Images

Það verður seint sagt að Formúlu 1 kappakstur dagsins hafi verið tíðindalítill. Lewis Hamilton fór með sigur af hólmi eftir að hann og Max Verstappen, hans helsti keppinautur, skullu saman þegar líða var farið á keppni dagsins.

Hamilton og Verstappen eru nú jafnir að stigum í keppni ökumanna þegar aðeins einn kappakstur er eftir af keppnistímabilinu.

Keppni dagsins fór fram í Jeddah í Sádi-Arabíu, var þetta fyrsta keppnin sem fer fram þar í landi. Mikil spenna var fyrir keppnina enda Hamilton og Verstappen í harðri baráttu um heimsmeistaratitilinn. Eftir að hafa skipst á að leiða kappaksturinn var það Hamilton sem kom fyrstur í mark á meðan Hollendingurinn Verstappen var í öðru sæti.

Var þetta 102. sigur Hamilton í Formúlu 1 frá upphafi. Þetta var einnig þriðji sigur Hamilton í röð, eitthvað sem honum hafði ekki tekist á tímabilinu, fyrr en í dag. Þar með hefur Bretinn þurrkað út forystu Verstappen sem þýðir að þeir eru jafnir að stigum fyrir lokakappakstur tímabilsins sem fram fer í Abu Dhabi um næstu helgi.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Verstappen hafði klesst bíl sinn í tímatökunni í gær og var aftur í sviðsljósinu í dag. Á tíunda hring keppninnar fór Mick Schumacher af brautinni og þurfti öryggisbíllinn að koma inn til að hægja á ökumönnum.

Illa gekk að ná flæði í kappaksturinn í upphafi og tvö rauð flögg til viðbótar hægðu á keppninni. Verstappen nýtti sér eitt slíkt augnablik og náði toppsætinu, honum var hins vegar skipað að gefa toppsætið til baka.

Verstappen hægði á sér en virtist svo hemla full harkalega þannig að Hamilton klessti aftan á hann án þess þó að bílar þeirra væru ónothæfir. Það urðu þó skemmdir á hægri framvængnum á bíl Hamiltons.

„Ég skyldi ekki alveg af hverju hann bremsaði svona harkalega. Svo eftir að ég rakst aftan á hann þá keyrði hann í burtu sem var frekar skrítið,“ sagði Hamilton um „áreksturinn“ milli sín og Verstappen.

Síðar fékk Verstappen fimm sekúndna refsingu fyrir að þvinga Hamilton út af brautinni. Hamilton tók á endanum forystuna á hring 43 og fór það svo að hann vann sigur í Sádi-Arabíu og nú er spennan óbærileg fyrir síðasta kappakstur tímabilsins.

„Sem betur fer vita áhorfendur hvað kappakstur snýst um því það sem gerðist í dag er ótrúlegt. Ég er bara að reyna að keppa en þessi íþrótt snýst meira um refsingar heldur en að keppa. Fyrir mér er þetta ekki Formúla 1 en sem betur fer nutu áhorfendurnir sín. Er greinilega ekki nægilega fljótur en samt í öðru sæti,“ sagði pirraður Verstappen eftir keppni dagsins.

„Þetta var ótrúlega erfitt. Ég reyndi að vera eins skynsamur og ég gat. Við höfum lent í mörgum skakkaföllum á þessu tímabili en höfum meðhöndlað þau öll vel. Ég er mjög stoltur af teyminu okkar og þakklátur fyrir bílinn í þessum kappakstri,“ sagði sjöfaldi heimsmeistarinn Hamilton að kappakstri loknum í dag.

Valtteri Bottas, samherji Hamilton hjá Mercedes, endaði í þriðja sæti í kappakstri dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×