Hannes er gestur vikunnar í Einkalífinu. Segja má að Hannes sé þjóðhetja og muna eflaust margir eftir því þegar hann varði vítaspyrnu frá Lionel Messi á HM í Rússlandi árið 2018.
Hann fór seint út í atvinnumennsku en kom samt sem áður víða við á sínum ferli sem atvinnumaður erlendis. Hannes hefur leikið sem atvinnumaður í Danmörku, Hollandi, Noregi og Aserbadjan.
Hann er giftur Höllu Jónsdóttur og eiga þau saman þrjú börn. Þau hjónin voru sjö ár á flakka um Evrópu á meðan Hannes lék sem atvinnumaður.
„Halla er búin að vera algjörlega frábær í gegnum þennan tíma og algjör stoð og stytta. Ég hefði aldrei getað gert þetta án hennar,“ segir Hannes í þættinum.
„Hún setur sinn starfsframa til hliðar. Hún var að vinna í Landsbankanum áður en við fórum út árið 2013. Þá var yngsta dóttir okkar átta mánaða og við erum að ala upp tvö elstu börnin okkar í fjórum löndum. Þetta er saga sem er mjög sjaldan sögð. Henni er kippt út á mjög góðum tíma á sínum starfsferli í hálfgerða einangrun. Við förum fyrst út til Noregs og hún er heima í fæðingarorlofi. Svo þegar hún er rétt að komast í takt þar þá förum við á næsta stað til Hollands og hún aftur komin á byrjunarreit,“ segir Hannes og heldur áfram.
„Auðvitað höfum við það alltaf fínt og með mikinn tíma með fjölskyldunni og þetta er að mörgu leyti algjört forréttindalíf, en hún flytur samt í burtu frá öllum sínum vinkonum og er búin að vera svolítið ein í þessu.“
Í þættinum er einnig er farið yfir ferilinn í boltanum, Leynilögguna, hvernig hann fór út í leikstjórn, föðurhlutverkið, augnablikið þegar hann varði vítaspyrnuna frá Messi og margt fleira.