Ekki kom á óvart að Andersson tæki við sem formaður flokksins en 26 flokksfélög Jafnaðarmannaflokksins höfðu öll tilnefnt Andersson sem nýjan formann. Löfven tilkynnti í haust að hann hygðist hætta sem formaður flokksins og svo forsætisráðherra á landsþinginu sem nú stendur yfir.
Flest bendir til að Andersson muni svo taka við sem forsætisráðherra Svíþjóðar á næstu dögum þó að ekkert sé gefið í þeim efnum. Andersson þarf fyrst að tryggja sér stuðning þingflokka þeirra flokka sem verja minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja vantrausti, það er Miðflokksins og Vinstriflokksins.
Forseti sænska þingsins mun líklegast tilnefna Andersson sem forsætisráðherra í næstu viku og þarf meirihluti þingsins að umbera Andersson sem forsætisráðherra, það ekki greiða atkvæði gegn henni, til að hún geti tekið við forsætisráðherraembættinu af Löfven. Gangi það eftir yrði hún fyrsta konan til að gegna forsætisráðherraembættinu í Svíþjóð.
Hin 54 ára Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins síðustu sjö ár.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð haustið 2022.