Rosø hefur staðið vaktina á heimaleikjum Sogndal síðastliðin sjö ár, en síðasta mánudagskvöld kom upp mjög svo alvarlegt atvik er Emil Pálsson hné niður á vellinum eftir tólf mínútna leik.
„Í svona aðstæðum seturðu þig í hlutverk sem hefur verið æft margoft,“ sagði Rosø í samtali við norska miðilinn VG.
„Ég sá ekki þegar Emil féll til jarðar, en dómarinn sá það. Hann veifaði höndum og virtist í uppnámi. Við áttuðum okkur fljótt á því að þetta var alvarlegt.“
Hann segir að sjúkraþjálfari liðsins hafi verið fyrstur á vettvang.
„Það er staðlað verklag að sjúkraþjálfarinn fari fyrstur inn á. Oft liggja leikmenn eftir einhverskonar samstuð. Í þetta skipti áttuðum við okkur á að aðstæður voru öðruvísi, þetta var eitthvað meira. Dómarinn veifaði eftir aðstoð og leikmenn brugðust öðruvísi við en við erum vanir.“
Eftir að hafa skoða endursýningar komust blaðamenn VG að frá því að dómarinn byrjaði að veifa og þar til að sjúkraþjálfarinn var mættur á svæðið liðu aðeins sjö sekúndur.
Læknirinn segir aðþegar um hjartastopp er að ræða séu tveir þættir sem skipta lykilmáli. Annars vegar að fylgja verklagi, og hins vegar samvinna.
„Eftir endurlífgun snýst þetta um að koma sjúklingnum í jafnvægi og ganga úr skugga um að lífsnauðsynlegir hlutir séu í lagi. Hlutir eins og öndun og súrefnisflæði. Þá er ekki síður mikilvægt að koma sjúklingnum fljótt á sjúkrahús.“
„Á mánudaginn gekk allt vel. Það var liðið sem bjargaði lífi Emils,“ sagði Rosø að lokum.