„Tilfinningin er æðisleg. Ég fékk að bera fyrirliðabandið í dag og er ógeðslega stolt. Það er stórkostlegt að fá að leiða þetta lið í dag,“ sagði Sif Atladóttir sem lék sinn fyrsta A-landsleik síðan í byrjun október 2019.
„Ég hef sagt það áður að það er mikill heiður að fá að leiða þessa stelpur, hjálpa þeim og styðja þær. Fá að vera hluti af þeirra vegferð í byrjun. Ég held áfram að segja það að það sé heiður að fá að deila leikvelli með þeim og sjá þær vaxa og þroskast,“ sagði Sif.
„Þetta var svona kaflaskipt. Mér fannst við vera með yfirhöndina allan tímann en það var erfiðara að opna þær í seinni hálfleik. Þær liggja þétt til baka, eru skipulagðar og agressívar á sínum síðasta þriðjungi. Þetta voru fimm frábær mörk og við tökum það með okkur en það er alltaf hægt að bæta eitthvað,“ sagði Sif en var erfitt að halda einbeitingu á móti liði sem byrjaði nánast að tefja á fyrstu mínútu.
„Nei ekki þannig. Maður er vanur þessu að það er kannski ágætt að ég stend þarna aftast til að kalla á þær og minna þær á það að vera þolinmóðar. Það kannski munar um það frá mér. Það er erfitt að tapa einbeitingunni í svona kulda því maður þarf að vera með fókusinn í lagi,“ sagði Sif.
„Við erum ánægðar með þessa tvo leiki og það verður spennandi að sjá næsta verkefni,“ sagði Sif.