„Þetta var fyrsti keppnisbyrjunarliðsleikurinn minn í landsliðinu og það er gríðarlegur heiður því það er mikil samkeppni í liðinu. Það er heiður að fá að spila og frábært að gera það í sigri,“ sagði Guðrún Arnardóttir, sem átti frábæra innkomu í vörn íslenska liðsins í 4-0 sigri á Tékklandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.
„Það gekk almennt fínt að eiga við Tékkana en mér fannst við aðeins vera að láta þær teyma okkur út úr stöðu í fyrri hálfleik þar sem við vorum aðeins villtar. Við báðum að setja mörkin og halda hreinu sem er mikilvægt. Þá byrjaði þetta að rúlla,“ sagði Guðrún.
Hvernig var að koma inn í vörnina við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur?
„Það er frábært því Glódís er geggjaður leikmaður og það er auðvelt að spila með henni. Maður getur ekki kvartað því það eru ekki til margir betri til að spila með,“ sagði Guðrún.
„Það er búið að ganga vel hjá Rosengard og mér finnst ég vera að taka skref fram á við. Það er mikilvægt að vera með sjálfstraust og ég er ánægð með að það sé til staðar núna,“ sagði Guðrún.
„Ég fékk að vita það í gær að ég væri í byrjunarliðinu og það kom mér á óvart. Það er gríðarleg samkeppni og erfitt að koma sér inn í liðið. Ég var gríðarlega spennt fyrir því og ákvað að reyna að nýta tækifærið eins vel og ég gæti,“ sagði Guðrún.