„Í þessari viku heimsfrumsýndum við myndina Kolapse sem er alþjóðlegt verkefni sýnt á sama tíma um allan heim og er myndin er aðgengileg öllum frítt. Þess má geta að RIFF er enn í fullum gangi í RIFF-Heima, fram til sunnudags 24. október er enn hægt að sjá myndir úr flokknum Teiknimyndir í RIFF-heima. Í næstu viku taka við myndir úr Ísland í sjónarrönd,“ segir í tilkynningu frá RIFF.
„Hægt verður að sjá allt stuttmyndaprógramið og þrjár myndir í fullri lengd. Myndirnar Ekki einleikið eftir Ásthildi Kjartansdóttur, Uglur eftir Teit Magnússon og Hvunndagshetjur eftir Magneu Björk Valdimarsdóttur. Þetta ættu að vera góðar fréttir fyrir marga því uppselt var á þessar myndir á hátíðinni.“

Sýningar á heimildarmyndinni Kolapse standa til 30. september en RIFF var þátttakandi í Kolapse fyrr á árinu með vali á íslenskum myndum sem leggja sitt á vogarskálarnar til umhverfismála. Last And First Men eftir Jóhann Jóhannson heitinn, austurríska myndin Earth eftir Nikolaus Geyrhalter sem var á RIFF í fyrra og TED-spjall Andra Snæs Magnasonar.
„Kolapse er rafrænn vettvangur sem ætlað er að stuðla að samtali þjóða um neyðarástand í loftslags- og samfélagsmálum. Listamenn úr ólíkum greinum, aðgerðasinnar og leiðtogar sameina krafta sína, kynna verk sín og taka þátt í umræðum um framtíð Jarðar og þær áskoranir sem næstu áratugir munu hafa í för með sér,“ að því er fram kemur í tilkynningu.
„Að Kolapse stendur, auk RIFF, vefurinn Kabinett sem er vettvangur og samfélag listamanna sem hefur það markmið að auka meðvitund, upplifa andartök friðar, hlusta á tónlist, horfa á kvikmyndir og taka skref fram á við í áríðandi baráttu fyrir umhverfinu og þeim félagslegu vandamálum sem eru aðsteðjandi í samtímanum.“