Sport

Brooklyn sóttu James Harden sem tryggingu fyrir Kyrie Irving

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Brooklyn Nets eru með vel mannað lið
Brooklyn Nets eru með vel mannað lið EPA-EFE/Peter Foley

Forráðamenn Brooklyn Nets í NBA deildinni lögðu hart að sér að sækja James Harden til liðsins. Ástæðan er sú að þeir treystu því ekki að Kyrie Irving myndi spila. Þetta segir körfuboltaskríbentinn Adrien Wojnarowski í hlaðvarpinu sínu, sem kom út um helgina.

Wojnarowski, eða Woj, eins og hann er ávallt kallaður í körfuboltasamfélaginu hefur lengi verið starfsmaður ESPN samsteypunnar og er einn best tengdi körfuboltablaðamaður Bandaríkjanna. Samkvæmt honum var James Harden sóttur til þess að vera með tryggingu ef Kyrie Irving myndi taka upp á einhverju einkennilegu.

Irving er einmitt þekktur fyrir ýmis furðuleg uppátæki og miklar jaðarskoðanir. Frægast er þegar Irving hélt því fram fullum fetum að jörðin væri flöt. Þá hefur Irving lýst yfir efasemdum um bólusetningar og lýst því yfir að hann sé talsmaður þeirra sem hafi ekki rödd en vilji ekki láta bólusetja sig.

Sean Marks, framkvæmdastjóri Brooklyn Nets, gaf út í vikunni að það fái enginn að vera í hlutastarfi í liðinu en Irving, sem er óbólusettur, má ekki spila leiki í New York ríki eða í Kaliforníu. Liðið gæti þó átt í vandræðum með að skipta Irving í burtu því hann hefur látið hafa eftir sér að hann muni einfaldlega hætta í körfubolta.

Brooklyn Nets teljast mjög sigurstranglegir í NBA deildinni þetta árið samkvæmt veðbönkum en það gæti sett strik í reikninginn ef Irving er ekki með liðinu.

NBA deildin hefst næstkomandi þriðjudag, 19. október, með leik Brooklyn Nets og Milwaukee Bucks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×