Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Ronaldo sigurmark United eftir sendingu frá varamanninum Jesse Lingard. Þetta var fjórða mark hans í fimm leikjum eftir að hann kom aftur til United í haust.
Bolt fagnaði markinu vel og innilega og eftir leikinn ræddi hann við Ferguson og þakkaði honum fyrir hans þátt í að fá Ronaldo aftur til United.
„Ronaldo hjálpaði til við að byggja félagið upp og það var dásamlegt þegar hann var hér. Svo ég er ánægður með endurkomu hans,“ sagði Bolt eftir leikinn.
„Ég sá Alex Ferguson og þakkaði honum fyrir að fá Ronaldo aftur. Ég er glaður. Ég hef ekki komið á Old Trafford í dágóðan tíma svo ég var bara glaður að vera í stúkunni með öllum og horfa á leikinn.“
Ferguson átti sinn þátt í að Ronaldo ákvað að koma aftur til United eftir ellefu ára fjarveru. Og eftir að Portúgalinn samdi við félagið skrifaði hann á samfélagsmiðla: „Sir Alex, þetta er fyrir þig.“
United er í 3. sæti F-riðils Meistaradeildarinnar með þrjú stig eftir tvo leiki. Næsti leikur liðsins í keppninni er gegn Atalanta á Old Trafford 20. október.
Næsti leikur United, sem er jafnframt sá síðasti fyrir landsleikjahlé, er gegn Everton á Old Trafford í hádeginu á laugardaginn.